Ís­lenska karla­lands­liðið í hóp­fim­leikum náði ekki á verð­launa­pall á EM í dag en liðið endaði í fjórða sæti með 55,300 stig. Danska karla­lands­liðið sem hefur í gengum tíðina ráðið lofum og lögum í hóp­fim­leikum karla var mætt aftur til leiks og vann mótið örugg­lega í ár en Danir sendu enginn lið á mótið í fyrra vegna Co­vid.

Strákarnir byrjuðu mótið af krafti og eigin­lega of miklum krafti þar sem nokkrir yfir­snéru stökkin sín á trampólíninu í upp­hafi móts. Þeir létu það hins vegar ekki á sig fá og gerðu frá­bærar gólfæfingar og fengu strákarnir tveimur stigum meira fyrir gólfið miðað við undan­keppnina.

Strákarnir enduðu síðan mótið með stæl er þeir stóðu öll stökkin sín á dýnunni.

Íslensku strákarnir bættu sig á gólfi frá undankeppninni um heil tvö stig.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

„Mér gæti ekki hafa gengið betur og ég er ekki eðli­lega á­nægður með liðið. Við vorum í fjórða sæti og erum bara sáttir með það,“ segir Helgi Lax­dal í sam­tali við blaða­mann beint eftir mót en strákarnir létu það alls ekki fá að hafa lent rétt fyrir neðan verð­launa­sæti.

Það var svo sannarlega stemming í íslenska karlaliðinu.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

„Við erum bara þeir fjórðu bestu í Evrópu,“ segir Helgi í léttu gríni og bætir við hlæjandi. „Ég meina það var enginn sem meiddi sig og allir heilir á húfi þannig ég er mjög á­nægður með það.“

„Þetta var bara ó­geðs­lega gaman. Við gerðum nokkur mis­tök en hækkuðum okkur í dansinum um tvo heila þannig við erum bara sáttir með daginn í dag,“ segir Helgi að lokum.

Strákarnir enduðu daginn á frábærri dýnu.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Helgi Lax­dal keppti með sitt fræga stökk á dýnu er hann gerir tvö­falt fram­heljar­stökk með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu á dýnunni en hægt er að sjá stökkið hér að neðan. Helgi er sá síðasti sem stekkur og fagnar liðið ákaft í móts­lok.