Íslenska karlalandsliðið í handbolta er ekki í neinni sóttvarnabúbblu í Búdapest í Ungverjalandi þar sem Evrópumótið í handbolta fer fram næstu vikurnar. Engin grímuskylda er í Ungverjalandi og landsliðin sem eru mætt til að spila á mótinu eru ekki með heila hæð fyrir sig líkt og venjan er þegar kemur að stórmótum.

Forráðamenn handboltasambands Íslands, HSÍ, kvörtuðu í gær við mótshaldara ásamt samböndum fleiri liða á mótinu, en fréttir bárust í gær úr herbúðum franska og serbneska landsliðsins um að staðan væri sú sama og hjá því íslenska. Liðin deila morgunverðarsal og göngum með öðrum hótelgestum.

Eftir að hafa eytt tugum milljóna í að einangra sig frá umheiminum gengu strákarnir okkar inn á hótel í Búdapest þar sem gestir og gangandi valsa um grímulausir.

„Við erum pínu fúlir því við erum búnir að eyða miklum fjárhæðum í að halda liðinu okkar frá öðrum. Skipuleggjendur ætla að skoða málið, hvað þeir geta gert,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, þá nýbúinn að klára fund með skipuleggjendum mótsins.

Hann segir að HSÍ hafi gert ýmsar ráðstafanir til að eingangra sig frá umheiminum sem hafi kostað skildinginn.„Við erum búnir að eyða stórfé í þetta. Þátttaka í stórmóti kostar mikið fé og sérstaklega núna. Svo löbbum við hingað inn á hótel og enginn með grímur.Okkur var svolítið brugðið, en við munum passa upp á okkur sjálfa. Það er það sem við getum gert,“ segir Guðmundur.

Landsliðsþjálfarinn, Guðmundur Guðmundsson, vakti máls á þessu í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær og sagði það koma á óvart hver staðan væri hjá liðinu í Ungverjalandi. Hann bjóst við því að liðið væri í verndaðra umhverfi sökum kórónu­veirufaraldursins, en smit hafa verið að greinast hjá þátttökuþjóðunum undanfarnar vikur.Fyrsti leikur Íslands er á morgun gegn Portúgal, en mótið hefst í dag.