Eftir úrslit dagsins á Evrópumótinu í handbolta er það ljóst að Ísland mætir Spáni ef Strákarnir okkar komast áfram í undanúrslitin á morgun. Það er háð því að Ísland vinni á morgun og Danir geri Íslendingum greiða og vinni Frakka síðar um kvöldið.

Ísland er í raunhæfum möguleika á að komast í undanúrslitin á morgun. Fyrsta verkefni íslenska liðsins er leikur gegn Svartfjallalandi sem er lokaleikur liðanna í milliriðlinum.

Takist Íslandi að vinna þann leik bíða Strákarnir okkar spenntir eftir niðurstöðu úr leik Dana og Frakka. Danskur sigur myndi þýða að Ísland fer áfram og mætir Spánverjum í undanúrslitaleiknum á föstudaginn.

Ef Ísland vinnur Svartfjallaland og Frökkum tekst að ná í stig gegn Dönum mæta Strákarnir okkar Noregi í leik upp á fimmta sæti riðilsins á föstudaginn.

Með sigri Svía í dag varð ljóst að sá leikur er um leið upp á sæti í lokakeppni HM á næsta ári sem fer fram í Póllandi og Svíþjóð.