Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann í dag sigur á Brasilíu í lokaleik liðsins á HM þar sem Ísland kemst ekki upp úr milliriðli sínum. Lokatölur úr leik dagsins 41-37 sigur Íslands.

Hvorki Aron Pálmarsson né Ómar Ingi Magnússon voru með íslenska liðinu í dag vegna meiðsla.

Fátt var um fína drætti hjá íslenska liðinu í leiknum, sér í lagi varnarlega þar sem Brasilíumenn skoruðu nánast úr hverri einustu sókn sinni.

Brasilíumenn voru ávallt nokkrum mörkum yfir í fyrri hálfleik og þegar flautað var til leikhlés skildu fjögur mörk liðin að og staðan 22-18, Brasilíu í vil.

Þannig stóðu leikar líka lengi vel í síðari hálfleik en eftir því sem á hann leið náðu strákarnir okkar að brúa bilið og að lokum að jafna metin þegar rétt rúmar tíu mínútur eftir lifðu leiks.

Fram að þessu hafði markaskorun í liðinu dreifst vel á leikmenn en þeir Bjarki Már, Janus Daði og Kristján Örn drógu vagninn hvað markaskorun varðar.

Það var svo nokkrum andartökum seinna sem Gísli Þorgeir Kristjánsson kom Íslandi yfir í fyrsta skipti í leiknum.

Þetta var forysta sem strákarnir okkar létu aldrei af hendi það sem eftir lifði leiks. Þeir sigldu að lokum heim fjögurra marka sigri 41-37.