Stórsigur Íslands á Ólympíumeisturum Frakklands var ein besta varnarframmistaða sem Ísland hefur sýnt á stórmóti en þar jafnaði vængbrotið lið Íslands met yfir fæst mörk fengin á sig í einum leik á Evrópumóti.
Leiknum lauk með 29-21 sigri Íslands þar sem Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður Íslands, varði vítakast á lokasekúndu leiksins.
Samkvæmt tölfræðiveitu evrópska handboltasambandsins, EHF, náðu Strákarnir okkar með því að jafna metið yfir fæst mörk fengin á sig í einum leik á EM.
Metið var sett árið 2012 þegar Ísland vann 27-21 sigur á Ungverjum á Evrópumótinu í Serbíu.