Leikmenn og forráðamenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta ferðast í dag til Egyptalands þar sem liðið tekur þátt í lokakeppi heimsmeistaramótsins næstu dagana.

Liðið millilendir í Kaupmannahópn og heldur svo áleiðis til Kaíró þar sem riðill Íslands verður leikinn.

Fyrsti leikur íslenska liðsins er á fimmtudagskvöldið kemur gegn kunnuglegum mótherjum, Portúgal, en liðin hafa mæst tvívegis í undankeppni EM 2022 síðustu dagana.

Leikur liðanna í Portúgal lyktaði með tveggja marka sigri Portúgals en Ísland vann níu marka sigur þegar liðin mættust að Ásvöllum í gær.

Ísland mætir svo Alsír á laugardaginn næstkomandi og Marokkó á mánudaginn eftir slétta viku.

Leikmannahópur Íslands á mótinu:

Markverðir: Björgvin Páll Gústavsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson

Vinstra horn: Oddur Grétarsson og Bjarki Már Elísson

Vinstri skytta: Elvar Örn Jónsson, Magnús Óli Magnússon og Ólafur Andrés Guðmundsson

Leikstjórnendur: Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason

Hægri skytta: Alexander Petersson, Kristján Örn Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson

Hægra horn: Arnór Þór Gunnarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson

Línumenn: Arnar Freyr Arnarsson, Elliði Snær Viðarsson, Kári Kristján Kristjánsson og Ýmir Örn Gíslason