Íslenska karlalandsliðið í handbolta flýgur í dag til Búdapest í Ungverjalandi þar sem liðið mun leika riðil sinn í lokakeppni Evrópumótsins næstu dagana.

Allir leikmenn, sem og þjálfarar og teymið í kringum landsliðið fengu neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófum sínum í gær og geta því ferðast með liðinu á leikstað.

Gunnar Magnúson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, og Guðni Jónsson, liðsstjóri eru lausir úr einangrun vegna smits síns og eru komnir til móts við liðið fyrir ferðalagið.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, sagði á blaðamannafundi í gær að engin meiðsli væru að plaga leikmenn liðsins og allir spenntir og klárir í slaginn fyrir fyrsta leik liðsins sem er gegn Portúgal á föstudaginn kemur,

Auk Portúgal er Ísland með lærisveinum Erlings Richardssonar hjá Hollandi og öðrum gestgjafa mótsins, Ungverjalandi, í riðli en mótið fer einnig fram í Slóvakíu.

Leikjadagskrá íslenska liðsins í riðlakeppni mótsins er eftirfarandi:

14.janúar
Portúgal – Ísland 19.30

16.janúar
Ísland – Holland 19.30
18.janúar

Ísland – Ungverjaland 17.00