Strákarnir okkar í karlalandsliðinu í handbolta unnu 28-25 sigur á Portúgal og eru því komnir með fyrstu stigin í milliriðlinum á Evrópumótinu í handbolta.

Spútniklið Portúgals var skrefinu á eftir því íslenska frá fyrstu sekúndu og var sigur Íslands fyllilega verðskuldaður eftir frábæra frammistöðu Íslands.

Ísland er því komið aftur á beinu brautina þegar tveir leikir eru eftir af milliriðlinum eftir að hafa tapað síðustu tveimur leikjum gegn Ungverjalandi og Slóveníu.

Með sigrinum heldur Ísland á lífi veikri von um að komast áfram í undanúrslitin eða í umspil um Ólympíusæti í Tókýo.

Eftir að hafa byrjað síðustu tvo leiki illa sóknarlega var enginn afsláttur gefinn í upphafi leiks gegn Portúgal. Íslenska liðið setti í fimmta gír og keyrði yfir Portúgal á upphafsmínútum leiksins.

Í markinu var Björgvin Páll Gústavsson að taka mikilvæga bolta og kom Alexander Petersson Íslandi 7-1 yfir á þrettándu mínútu leiksins.

Portúgalarnir virtust ekki trúa eigin augum en vöknuðu til lífsins við þetta og hófu að saxa á forskot Íslands. Á níu mínútum tókst Portúgal að minnka forskot Íslands niður í eitt mark.

Munurinn var tvö mörk í hálfleik en á upphafsmínútum seinni hálfleiks voru það Portúgalir sem náðu frumkvæðinu og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum.

Strákarnir okkar létu það ekki slá sig út af laginu og svöruðu með 5-1 kafla sem lagði grundvöllinn að sigri Íslands.

Portúgalarnir voru aldrei langt undan á lokamínútum leiksins en Strákarnir okkar voru með leikinn í eigin höndum og slepptu ekki takinu.

Janus Daði Smárason fór fyrir íslenska liðinu í sóknarleiknum með átta mörk á meðan Aron Pálmarsson og Alexander voru með fimm mörk hvor.