Liðið heldur til á Grand Hótel um þessar mundir í svokallaðri sóttvarnarkúlu til þess að minnka líkur á kórónuveirusmitum innan hópsins, fjarri fjölskyldum sínum sem er nokkuð ólíkt því sem hefur tíðkast hjá liðinu.

Það er þó ljóst að liðið er ekki alveg innilokað á hótelherbergjum milli þess sem það mætir til æfinga. Leikmenn liðsins náðu að gera sér glaðan dag í gær og fengu að athafna sig í golfhermum í boði Golfsvítunnar að því er kemur fram í færslu frá HSÍ á samfélagsmiðlum í dag.

Það fjölgaði um tvö á æfingu landsliðsins í dag en allir leikmenn greindust neikvæðir fyrir kórónuveirunni í PCR prófum gærdagsins. Um er að ræða tvo leikmenn liðsins sem voru annað hvort í sóttkví eða einangrun. Þá stendur eftir einn leikmaður sem hefur enn ekki fengið leyfi til þess að hefja æfingar með liðinu. Þetta staðfesti HSÍ við RÚV fyrr í dag.

Íslenska landsliðið heldur út til Ungverjalands í næstu viku en fyrstu leikur liðsins á EM er gegn Portúgal á föstudaginn í næstu viku.