Fyrstu leikir Íslands á HM í handbolta fara fram í glænýrri höll í borg í útjaðri Kaíró. Borgin er hluti af uppbyggingarstefnu egypskra stjórnvalda og er ekki enn komin með nafn og kallast því New Administrative Capital í dag.

Alls tekur höllinn 7500 manns í sæti en engir áhorfendur verða á mótinu og verður því leikið fyrir tómum kofa.

Á heimasíðu keppninnar kemur fram að kostnaðurinn við að reisa höllina var 2,2 milljarður egypskra punda.

Það eru tæplega átján milljarðar íslenskra króna en í höllinni er einnig að finna sundaðstöðu og ýmsa aðra keppnisvelli.

Markmið stjórnvalda er að draga úr þéttbýli í Kaíró með nýju borginni en þar verður meðal annars að finna hæstu byggingu Afríku, varnarmálaráðuneyti Egyptalands og stærstu mosku landsins.