Hrafn Kristjáns­son, fyrr­verandi þjálfari KR sem varð tvö­faldur meistari með liðinu árið 2011, segir fall fé­lagsins úr deild þeirra bestu vera per­sónu­legt á­fall fyrir marga og ekki bara KR-inga. Í sam­tali við Frétta­blaðið rýnir hann í stöðu fé­lagsins á þessum tíma­punkti, fer yfir það sem á undan hefur gengið og hvað tekur við.

„Til að byrja með þá er þetta fá­heyrður fjöldi leik­manna sem dettur út hjá liðinu í byrjun tíma­bils, reyndir leik­menn sem erfitt er fyrir reynslu­lítinn þjálfara liðsins, Helga Má Magnús­son, að eiga við,“ segir Hrafn við Frétta­blaðið. „Leik­manna­markaðurinn er að sama skapi erfiður, að fá leik­menn til Ís­lands er á­kveðin kúnst. Það verk­efni að fá inn nýja leik­menn fyrir allan þennan fjölda sem þurfti frá að hverfa er hluti á­stæðunnar fyrir því hvernig fór hjá liðinu.“

Hrafn Kristjánsson, fyrrum þjálfari KR

Á­hættan raun­gerðist

Í stóra sam­henginu hafi körfu­knatt­leiks­deild KR á sínum tíma tekið mjög með­vitaða á­kvörðun um að stefna alltaf á einn hlut, að enda alltaf efst allra liða á Ís­landi.

„Sú veg­ferð sem fé­lagið fór í í kjöl­farið er for­dæma­laus, sex Ís­lands­meistara­titlar í röð og titill á öðru hverju ári þar á undan. Það er eitt­hvað sem hefur ekki sést áður og er al­ger­lega stór­kost­legur árangur. Til að svona lagað gangi upp þarf að spenna bogann ansi hátt og taka á­kveðnar á­hættur. Það er nánast ó­mögu­legt að halda úti svona svaka­lega árangurs­drifnu prógrammi nema liðið fari í gegnum allar um­ferðir úr­slita­keppninnar og í úr­slit á hverju einasta ári til að afla nægi­legs fjár­magns til að loka hverju tíma­bili fyrir sig.“

Sú á­hætta féll um sjálfa sig að sögn Hrafns þegar öllu var lokað og keppni hætt tíma­bilið 2019–2020 vegna Co­vid-19 heims­far­aldursins.

„Þegar það gerist hefðu aðrir þættir þurft að grípa liðið í fallinu eða alla vega mýkja það eitt­hvað. Til að mynda hefði mögu­lega mátt breyta mark­miða­setningu liðsins fljót­lega eftir að á­hrif Co­vid-lokana komu í ljós, það var ekki gert og í staðinn á­kveðið að halda á­fram á sömu braut þó svo að for­sendurnar væru kannski ekki fylli­lega til staðar. Að sama skapi var yngri flokka starf fé­lagsins ekki á þeim stað að geta fleytt nægi­lega mörgum sterkum leik­mönnum upp í meistara­flokk.

Um tví­eggjað sverð sé að ræða.

„Ef þú ætlar þér alltaf að tefla fram besta liðinu, ætlar þér alltaf að vinna til verð­launa þá ertu í rauninni að skapa um­hverfi þar sem erfitt er fyrir unga leik­menn, aðra en þá sem eru al­gjör­lega í efstu hillunni, að fá sín tæki­færi. Þeir leik­menn leita þá að tæki­færum annars staðar. Það hefur því sína kosti og galla að keyra liðið á­fram á þessari stefnu.“

Heima­kjarninn var lykillinn

Nú tali fólk oft um að KR hafi keypt sér sína meistara­titla.

„Stað­reyndin er náttúru­lega sú að alltaf, að baki hverjum einasta Ís­lands­meistara­titli, hefur liðið með bestu ís­lensku leik­mennina staðið uppi sem sigur­vegari. Bestu ís­lensku leik­menn KR voru, að lang­mestum hluta til, upp­aldir leik­menn. Heima­kjarni leik­manna sem kunni að vinna, það ber að virða. Þegar það er ekki til staðar er bara mjög erfitt að vinna. KR hefur oftar en einu sinni orðið Ís­lands­meistari með Banda­ríkja­mann í sínu liði sem ekki endi­lega er úr allra efstu hillu. Þetta hefur ekki snúist um að fá inn ein­hvern er­lendan meistara til þess að vinna fyrir sig titil, þetta hefur alltaf snúist um heima­menn og upp­alda leik­menn. Svona fall raun­gerist ekki nema margir þættir bregðist á sama tíma­punkti og þetta brott­hvarf ís­lenskra leik­manna og lítil endur­nýjun er einn þeirra þátta.“

Það megi ekki van­meta á­hrif þess að KR missti reynslu­mikla leik­menn eins og Brynjar Þór Björns­son, Matthías Orra Sigurðs­son og Björn Kristjáns­son úr leik­manna­hópnum.

„Burt­séð frá því hvernig meiðsla­staðan er eða hversu öflugir þeir eru sem leik­menn akkúrat á þeim tíma­punkti. Þú þarft alltaf þessar raddir inni í klefanum sem vita hvað þarf til að ná árangri og passa að hópurinn fljúgi ekki of hátt eða sökkvi of djúpt eftir því hvernig tíma­bilið þróast. Leik­menn sem vita til að mynda hve­nær og hvernig þarf að grípa í taumana þegar ungir og efni­legir drengir eða reynslu­litlir, er­lendir at­vinnu­menn hlaupa út undan sér. Að auki var það auð­vitað risa­á­fall þegar Þórir Þor­bjarnar­son hélt út í víking í byrjun Ís­lands­móts.“

Brynjar Þór lagði skóna á hilluna á síðasta ári

Small ekki um leið

Að því sögðu hafi líka verið gerð mis­tök á yfir­standandi tíma­bili. Út­lendinga­málin hafi til dæmis alls ekki gengið upp. Að hans mati sé mjög mikil­vægt að þau lið í efstu deild sem talið er að lendi jafn­vel í vand­ræðum verði að koma á fullri ferð inn í mótið og ná í stig snemma á tíma­bilinu til að styrkja stöðu sína fyrir seinni hluta tíma­bils þegar allt er undir.

„Það gerðu Breiða­blik og Höttur til dæmis, þau lið mættu sterk og vel sam­hæfð til leiks og unnu sér inn stig meðan stærri liðin voru enn að koma sínum liðum saman og ná takti í sinn leik. Svo­kölluð stærri lið eru oft ró­legri í tíðinni í upp­hafi tíma­bils, taka tíma í að full­klára hlutina og eru öruggari um að geta verið á réttum stað með sína hópa á réttum tíma.

Til að þetta gæti gengið upp hjá KR hefði liðið þurft að ná þessu réttu strax í byrjun tíma­bils, hitta á réttu liðs­myndina frá fyrsta leik. Fyrst það gekk ekki eftir varð fljót­lega ein­sýnt að þetta yrði á­kveðin þrauta­ganga.“

Lítil þórðar­gleði

Hrafn hefur djúp­stæða tengingu við KR og hefur upp­lifað þar margar af bestu minningum sínum á þjálfara­ferlinum.

„Þetta er per­sónu­legt á­fall fyrir öll þau sem hafa tekið þátt í þessu starfi KR á ein­hverjum tíma­punkti og telja sig KR-inga. Ég held um leið að þetta sé á­kveðið á­fall fyrir ansi marga, eigin­lega alla. Maður verður varla var við ein­hverja þórðar­gleði, ég bjóst við svona hundrað sinnum meira á­reiti yfir því að KR félli úr deildinni af því að KR hefur í gegnum tíðina verið fé­lag og körfu­knatt­leiks­deild sem hefur haft lúmskt gaman af því að fólk „hati“ liðið og árangur þess.

Ég held að KR-ingar hafi verið til­búnir í að fá hol­skeflu af háði yfir sig við þetta tæki­færi en ég hef bara ekki orðið mikið var við það. Ég hef séð meira af því að stuðnings­menn annarra liða á sam­fé­lags­miðlum hafi nánast sýnt sam­úð eða hlut­tekningu. Fólki sem finnst skrítið að þurfa að horfa á efstu deild í körfu­bolta án þess að KR sé þar á meðal. Þetta er mjög sér­stakt á­stand, mjög sér­stök til­finning sem maður finnur innra með sér.“

Hvaða til­finningar bærast hjá þér per­sónu­lega gagn­vart þessari stöðu?

„Mér finnst þetta náttúru­lega af­leitt og við getum alveg út­víkkað þetta eitt­hvað innan fé­lagsins. Við erum að horfa á eitt forn­frægasta í­þrótta­fé­lag á Ís­landi með eitt lið í efstu deild í bolta­í­þróttum beggja kynja saman­lagt. Þetta er ein­hvern veginn fé­lag sem búið er að inni­loka inn í lítið, stór­kost­legt hverfi þar sem meðal­aldur er að hækka, stækkunar­mögu­leikar eru tak­markaðir og ein­hvers konar á­stand myndast sem erfitt er að eiga við. Það eru greini­lega djúp­stæð vanda­mál til staðar varðandi til dæmis fjár­öflun, fjölda iðk­enda, að­stöðu til æfinga og fleiri þætti sem ég ræð ekki við að telja upp eða leysa í þessu spjalli. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að körfu­knatt­leiks­deild KR og fé­lagið allt er smekk­fullt af hæfi­leika­ríku og á­huga­sömu fólki sem á án efa eftir að snúa bökum saman og finna fram­tíðar­lausnir á þessum á­skorunum.“

Helgi geti orðið frá­bær þjálfari

Helgi Már Magnús­son, goð­sögn í sögu körfu­knatt­leiks­deildar KR og marg­faldur meistari með liðinu, fékk það krefjandi verk­efni að stýra KR á yfir­standandi tíma­bili.

Er hann rétti maðurinn til þess að leiða liðið á­fram?

„Ég þekki það vel úr mínu starfi að falla úr efstu deild og hvaða til­finningar fylgja því. Þegar maður lítur yfir farinn veg og yfir­staðið tíma­bil sér maður fullt af hlutum sem öðru­vísi hefðu mátt vera, á­kvarðanir sem maður vildi geta tekið til baka og mis­tök sem vert er að læra af. Ég er alveg viss um að það eigi við í til­felli Helga Más líka.

Helgi Már Magnússon, þjálfari KR
Fréttablaðið / Ernir

Að mínu mati er Helgi efni í hörku­þjálfara, það er bara spurning hvort hann telji 1. deildina í körfu­bolta með KR rétta sviðið til þess að taka næstu skref í sínum þroska sem þjálfari og á sama tíma hvort körfu­knatt­leiks­deild KR telur að þjálfari með hans eigin­leika smell­passi í það verk­efni sem bíður í 1. deild. Helgi hefur fullt af verk­færum í sinni tösku og næga þekkingu til þess að vera frá­bær þjálfari, í mínum huga er það engin spurning.“

Ekki víst að KR fari beint upp

Hrafn býr að reynslu frá því að þjálfa lið í 1. deild og þekkir um­­hverfi deildarinnar mjög vel.

Inn í hvernig um­hverfi er KR að fara í deildinni?

„Það fer mjög mikið eftir því hvaða á­kvarðanir verða teknar á árs­þingi KKÍ, hvaða um­hverfi KR er að fara að stíga inn í. Eins og 1. deildin horfir við mér í ár og árin þar á undan er alls ekki sjálf­gefið að KR stoppi að­eins við í eitt ár og hoppi beint upp aftur.

Í 1. deildinni er tölu­vert af liðum með metnað sem kunna að taka inn réttu er­lendu leik­mennina sem henta vel í þessa keppni og bíða gríðar­lega spennt eftir að fá Reykja­víkur­stór­veldið í heim­sókn. Það eru ein­fald­lega hverfandi fáir auð­veldir leikir í þessari deild.

Þetta verða leikirnir sem merkt verður sér­stak­lega við á daga­tölunum hjá flestum af liðum deildarinnar. Það er meira en að segja það að gera sér ferð í Borgar­nes eða á Horna­fjörð, ef bæði þessi lið eru enn í deildinni næsta tíma­bil, og ná í sigur. Þetta verður al­vöru verk­efni fyrir KR og al­gjört lykil­at­riði fyrir liðið að festa þessa yngri leik­menn sína sem hafa verið að komast að­eins inn á gólfið í vetur og sann­færa þá um að taka þátt í því verk­efni að koma upp­eldis­fé­laginu aftur upp í efstu deild sem allra fyrst.“