Viku eftir að forráðamenn ensku knattspyrnufélaganna Liverpool og Manchester United voru gerðir afturreka með tillögur sína um róttækar breytingar á fyrirkomulaginu í kringum ensku deildarkeppninnar hafa sprottið fram á sjónarsviðið vangaveltur þeirra, í slagtogi við kollega þeirra stærstu félagsliðum Evrópu, um að setja á laggirnar eins konar Ofurdeild félagsliða í álfunni.

Þar myndu 18 af sterkustu félögum heims taka þátt í keppni sem stofnaðilar hennar væru eigendur að. Spilað yrði eftir því fyrirkomulagi að lið falli ekki úr keppni á milli keppnistímabila heldur myndu stofnendur sjá um að velja þau lið sem keppa hverju sinni án aðkomu sérsambanda.

Fréttablaðið leitaði til Björns Berg Gunnarssonar, deildarstjóra Greiningar Íslandsbanka og sérfræðings í fjármálum í íþróttum, um rót þessara tillagna, áhrif þeirra og líklegs lokamarkmiðs sem þær eiga að hafa í för með sér.

„Það er ljóst að mínu mati að stóru félögin í Evrópu eru með afgerandi hætti að krefjast meiri tekna. Þau skapi í raun stærstan hluta tekna Evrópuboltans en stór hluti þeirra verðmæta renni svo til annarra félagsliða og það sé tilraunarinnar virði að freista þess að stórauka hlut þeirra.

Í þeirra huga er ein leið til þess að hala inn meiri tekjur sú að fara í það módel að þau keppi innbyrðis og tekjurnar renni óskertar til þeirra,“ segir Björn Berg í samtali við Fréttablaðið.

„Inn í þetta blandast svo deilur milli alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, og evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA. FIFA kom nýlega með þá hugmynd að búa til sams konar keppni og félögin eru nú að bollaleggja um að setja laggirnar.

Sú keppni átti að koma í stað heimsmeistaramóts félagsliða og þar áttu sterkustu félagslið heims að spila. Sú hugmynd fékk ekki mikinn hljómgrunn þegar það kom upp úr krafsinu, þrátt fyrir tilraunir til að leyna þeim upplýsingum, að keppnina átti að fjármagna með fé frá Sádí-Arabíu,“ segir Björn um stöðu mála.

„Það er enginn tilviljum að hugmyndir þessara stóru félaga í Evrópu séu að koma upp á yfirborðið á þessum tímapunkti. Þetta er ekki eitthvað kaffispjall forráðamanna félaga á vinalegum nótum um framtíðarplön þeirra. Það er mikill þungi í þessum sjónarmiðum þeirra og þau eru að setja gríðarlega pressu á UEFA og deildirnar heima fyrir að viðkomandi félög fái stærri sneið af kökunni í deildum og Evrópukeppnum. Þeim þykir ekki sanngjarnt að sjónvarpsréttur sem er keyptur út á aðdráttarafl þeirra renni til annarra félaga,“ segir.

Björn Berg Gunnarsson ályktar að miklar líkur séu að stóru félögin nái að knýja fram einhvers konar breytingar.

„Núverandi fyrirkomulag UEFA varðandi Evrópukeppnir gildir til 2024 og stendur endurskoðun þeirra væntanlega yfir. Sterkustu félögin í Evrópu eru nú byrjuð að ota sínum tota í þeim hugleiðingum. Þau eru í raun að segja þau muni ekki sætta okkur við núverandi fyrirkomulag og hóta því óbeint að taka félögin úr Meistaradeild Evrópu.

Þau eru með gríðarlega góða samningsstöðu í ljósi þess hversu veikar keppnirnar yrðu án þeirra. Þá verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig störukeppnin milli FIFA og UEFA um hverjir munu fá tekjur af keppnum í framtíðinni mun þróast.

Hingað til hefur það verið þegjandi samkomulag um að FIFA fái lungann úr sínum tekjum af heimsmeistaramóti landsliða á meðan UEFA hefur verið borið upp af Meistaradeild Evrópu. Það gæti breyst ef félögin ákveða að fara aðra leið í þessum efnum og fá FIFA jafnvel með í þann dans,“ segir Björn um framhaldið.

„Hér munu togast á sjónarmið sem hafa verið ríkjandi í knattspyrnunni í Evrópu og ekki síst á Englandium að um að öll félög eigi að eiga sem jafnasta möguleika á að færast upp á milli deilda og ná árangri í efstu lögum annars vegar og hins vegar hagsmunir sterkustu félaganna sem hafa vissulega dregið að stærstu sjónvarpssamningana og samstarfsaðilana, til hagsbóta fyrir minni félögin.

Ef kerfinu væri ekki miðstýrt hvað tekjudreifingu varðar þá væru lið í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu ekki að keppa á jafnréttisgrundvelli við aðra heldur væru allt of sterk.

Svo er bara spurning hvort knattspyrnan vill taka sterkustu félögin út fyrir sviga og láta þau mætast oftar yfir árið eða ríghalda í gamalgrónar og rómantískar hugmyndir um að þátttaka í keppnum eigi að ákvarðast út frá úrslitum inni á knattspyrnuvellinum,“ segir hann enn fremur um næstu skref í málefnum knattspyrnunnar en bætir við að hið síðarnefnda hugnist honum talsvert betur.