Strákarnir okkar náðu ekki að stríða Englendingum í 0-4 tapi á Wembley í lokaleik Íslands í Þjóðadeildinni þetta árið og lokaleik íslenska landsliðsins undir stjórn Erik Hamrén.

Karlalandsliðið lýkur því keppni í efstu deild Þjóðadeildarinnar án stiga annað tímabilið í röð.

Ljóst var að í fjarveru lykilleikmanna hjá Íslandi yrði verkefnið strembið og voru Englendingar ekkert að gefa neinn afslátt í kvöld.

Ísland stillti upp fimm manna varnarlínu og var breytt lið sem mætti til leiks frá síðustu leikjum. Kári Árnason var með fyrirliðabandið í leik sem gæti reynst hans síðasti fyrir landsliðið.

Fyrstu mínútur leiksins spiluðust vel fyrir íslenska liðið. England fékk að klappa boltanum að vild en lítið kom upp úr sóknum þeirra.

Það var því sárt að sjá fyrsta markið koma upp úr föstu leikatriði þegar Declan Rice skoraði fyrsta mark sitt fyrir England með skalla eftir aukaspyrnu Foden.

Nokkrum mínútum síðar bætti Mason Mount við marki eftir óheppilegan varnarleik Íslands og gerði út um leikinn. Englendingar hleyptu Íslendingum aldrei í álitlegar sóknir en voru sjálfir ekki að skapa sér mörg færi.

Síðasta von Íslands rann út í súginn í upphafi seinni hálfleiks þegar Birki Má Sævarssyni var vikið af velli. Birkir fékk tvö ódýr gul spjöld í leiknum og var rekinn af velli fyrir brot á Bukayo Saka.

Kári Árnason átti einu marktilraun Íslands í leiknum eftir hornspyrnu en skallaði boltann framhjá eftir vel útfærða hornspyrnu.

Undir lok leiksins tókst Englendingum að bæta við forskotið þegar Foden skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning Jadon Sancho.

Foden var aftur á ferðinni skömmu síðar þegar hann skoraði með laglegu langskoti.

Á lokamínútum leiksins fékk Ísak Bergmann Jóhannesson eldskírn sína með landsliðinu.