Það er engum blöðum um það að fletta að árið sem er að líða hefur verið afar erfitt fyrir Knattspyrnusamband Íslands

Á dögunum kom í ljós að sambandið hefði ekki brugðist við ábendingum um kynferðis- eða ofbeldisbrot hjá leikmönnum karlalandsliðsins.

Formaðurinn steig frá borði eftir að hafa viðurkennt að hafa sagt ósatt í viðtölum um hvort að KSÍ hefðu borist tilkynningar um ofbeldisbrot.

Ein skærasta stjarna karlalandsliðsins var handtekin vegna gruns um kynferðisbrot erlendis og aðstoðarþjálfarinn var settur í tímabundið leyfi og síðar leystur frá störfum vegna vandræða utan

Meintu ósætti neitað

Í vor gaf Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, til kynna í hlaðvarpsþættinum The Mike Show, að ósætti milli Eiðs Smára Guðjohnsen og Gylfa Þórs Sigurðssonar hefði gert það að verkum að Gylfi gaf ekki kost á sér í fyrsta verkefni landsliðsins undir stjórn nýs þjálfarateymis.

Gylfi kvað þessar sögusagnir niður í samtali við 433.is og sagði ekkert til í því að það væri ósætti milli hans og Eiðs.

Handtekinn um sumarið í Bretlandi

Um miðjan júlímánuð bárust fréttir af því að Gylfi Þór hefði verið handtekinn í tengslum við kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.

Rannsókn málsins hefur staðið yfir í hálft ár, en um miðjan októbermánuð kom fram á vef Fréttablaðsins að rannsókn málsins stæði yfir og að Gylfi yrði áfram laus gegn tryggingu, en í farbanni frá Bretlandseyjum.

Hann er ekki í leikmannahópi Everton í ensku úrvalsdeildinni og hefur Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska landsliðsins, verið stuttorður þegar hann hefur verið spurður út í samskipti við Gylfa og sagst ekki hafa átt í neinum samskiptum við hann.

fréttablaðið/anton

Grunur um heimilisofbeldi hafi átt heima á borði lögreglu

Í skýrslu ÍSÍ sem gefin var út á dögunum kom fram að lögreglan hefði verið kölluð að heimili leikmanns karlalandsliðsins árið 2016 vegna gruns um heimilisofbeldi. Lögreglan hefði verið kölluð til eftir ábendingar frá nágranna.

Áður kom fram á vef Fréttablaðsins að um væri að ræða Ragnar Sigurðsson.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfesti í skýrslu starfshóps ÍSÍ að hún hefði vitað af málinu og látið Geir Þorsteinsson, þáverandi formann KSÍ, Magnús Gylfason og Guðna Bergsson vita um málið.

KSÍ hefði hins vegar ályktað að þar sem málið átti sér stað utan landsliðsverkefnis hefði KSÍ metið það sem svo að það væri í verkahring lögreglunnar.

Í skýrslu ÍSÍ fullyrti Magnús, sem sat þá í landsliðsnefnd karlalandsliðsins, að hann hefði fundað með Ragnari og eiginkonu hans degi síðar og að ekkert hefði bent til þess að þetta hefði átt sér stað.

Fyrrverandi eiginkona Ragnars leiðrétti þetta við ÍSÍ sama dag og skýrslan kom út og sagðist ekki hafa rætt við Magnús um málið.

Geir sagði að málið hefði ekki verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins væri að ræða“, en sagði mögulegt að hann hefði ráðlagt Magnúsi um almannatengil sem gæti aðstoðað í slíkum málum.

Umrædd eiginkona lýsti yfir vonbrigðum með vinnubrögð KSÍ í málinu.

Mál Kolbeins opnaði á umræðuna

Undir lok sumars fullyrti Guðni Bergsson í samtali við Fréttablaðið að KSÍ hefði ekki borist erindi um ofbeldis- eða kynferðisbrot vegna landsliðsmanna á tíma sínum sem formaður KSÍ.

Degi síðar endurtók Guðni fullyrðinguna í Kastljósi, sem leiddi til þess að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og greindi frá ofbeldi af hálfu Kolbeins Sigþórssonar og gagnrýndi um leið vinnubrögð KSÍ í ofbeldismálum.

Máli sínu til rökstuðnings var Þórhildur með gögn sem sýndu fram á samskipti milli föður hennar og Guðna frá 2018, um ofbeldisbrot af hálfu Kolbeins og um þátttöku hans í landsliðsverkefnum.

Kolbeinn var annar tveggja leikmanna sem voru teknir úr landsliðshópnum fyrir næsta verkefni og sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann staðfesti að hafa samið við Þórhildi og vinkonu hennar vegna ofbeldismálsins, en fullyrti að hann kannaðist ekki við umrædd atvik sem áttu að hafa átt sér stað.

Afsögn stjórnar KSÍ

Í upphafi sumars greindi kona frá kynferðisbroti, á samskiptamiðli sínum, sem átti sér stað árið 2010. Í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ kom fram að æðstu stjórnendur KSÍ hefðu í byrjun júní fengið upplýsingar um alvarlegt kynferðisbrot af hálfu tveggja leikmanna karlalandsliðs Íslands, eftir leik gegn Danmörku í Kaupmannahöfn 2010, frá tengdamóður fórnarlambsins, sem hefur starfað fyrir KSÍ um árabil.

Tveimur mánuðum síðar vakti pistill Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur á Vísi athygli, þar sem Hanna sagði KSÍ beita sér fyrir því að þagga niður ofbeldisásakanir í garð karlalandsliðsins.

Um miðjan ágúst ítrekaði Guðni við stjórn KSÍ að engin slík mál hefðu komið formlega inn á þeirra borð en það var ekki fyrr en undir lok mánaðarins sem stjórn KSÍ og starfsfólk fékk staðfestingu á að um væri að ræða málefni tveggja landsliðsmanna.

Tveimur dögum síðar bauðst Guðni til að stíga tímabundið til hliðar á meðan úttekt yrði gerð á málinu, en þegar það hlaut ekki meðbyr sagði Guðni af sér.

Degi síðar sagði stjórn KSÍ af sér.

Tímalína sem skýrir fall stjórnar KSÍ
Mynd/Fréttablaðið

Fyrirliðinn tekinn úr hópnum

Arnar Þór Viðarsson viðurkenndi að hafa hætt við að velja Aron Einar Gunnarsson í landsliðið fyrir leiki gegn Armeníu og Liechtenstein eftir viðræður við stjórn KSÍ, vegna ásakana um kynferðisbrot frá árinu 2010.

Aron sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist vera settur saklaus til hliðar í nýrri úti­lokunar­menningu KSÍ.

Kæra er á borði hjá lögreglu um umrætt atvik en Eggert Gunnþór Jónsson er einnig með réttarstöðu sakbornings.

Vanda tekur við formannsembættinu

Boða þurfti til aukaþings hjá KSÍ þar sem kosin yrði ný stjórn og nýr formaður, eftir að þáverandi stjórn og formaður sögðu af sér.

Fráfarandi stjórn sinnti áfram störfum að kröfu evrópska- og Alþjóðaknattspyrnusambandsins til þess að koma í veg fyrir að Ísland ætti á hættu að missa þátttökurétt sinn á mótum innan vébanda FIFA.

Fjórum vikum síðar var Vanda Sigurgeirsdóttir kosin formaður KSÍ, fyrst kvenna og fyrst kvenna til að taka við embætti formanns í aðildarsambandi UEFA.

Vanda er tíundi formaður KSÍ frá upphafi, en hún lék á sínum tíma 37 leiki fyrir Íslands hönd.

Stjórn KSÍ nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi Eiðs eftir atvik í Skopje
Eyþór Árnason/Fréttablaðið

Mál að­stoðar­þjálfara í brenni­depli

Um mitt sumar fékk Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins, skriflega áminningu vegna starfsskyldna sinna og var settur í tímabundið leyfi frá störfum.

Var ákvörðunin tekin eftir að myndband af honum í annarlegu ástandi í miðbænum birtist á samfélagsmiðlum.

Í yfirlýsingu sinni lýsti KSÍ yfir stuðningi við Eið og sneri hann aftur í teymið í haust.

Eftir síðasta verkefni karlalandsliðsins ákvað KSÍ hins vegar að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans eftir gleðskap hjá karlalandsliðinu daginn eftir síðasta leikinn gegn Norður-Makedóníu.

Slakur árangur karlaliðsins

Karlalandsliðið í knattspyrnu átti í stökustu vandræðum í undankeppninni fyrir HM 2022 á þessu ári.

Vandræði utan vallar leiddu til þess að Ísland þurfti að nota 36 leikmenn í tíu leikjum og var niðurstaðan níu stig af þrjátíu.

Tveir sigurleikir, báðir gegn Liechtenstein, og fimm tapleikir.