Það fer fram sannkallaður stórleikur í Bestu deild kvenna í kvöld þegar Valur tekur á móti Breiðabliki.

Valur er á toppi deildarinnar að fjórtán umferðum loknum, sex stigum á undan Breiðabliki. Þá er Valur með aðeins betri markatölu en Blikar.

Gestirnir úr Kópavogi þurfa því nauðsynlega á sigri að halda í kvöld, ef liðið ætlar sér að halda titilbaráttunni á lífi í þeim þremur umferðum sem eftir verða að leik loknum í kvöld.

Þegar liðin mættust fyrr á tímabilinu vann Valur 0-1 sigur á Kópavogsvelli. Þá áttust liðin einnig við í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í lok síðasta mánaðar. Þar hafði Valur sömuleiðis betur, 2-1.

Leikurinn í kvöld fer fram á Origo-vellinum að Hlíðarenda og hefst klukkan 19:15.

Annar leikur er á dagskrá í Bestu deild kvenna í kvöld. Þar tekur Afturelding á móti KR. Sá leikur hefst á sama tíma og stórleikurinn.