„Það er mikil tilhlökkun í loftinu og fjórir ættliðir á leiðinni út að fylgjast með liðinu og henni. Ég á ekki von á öðru en að það verði góð stemning, enda flestallir af nánustu skyldmennunum að fara sem hafa heilsu til,“ segir Jóney Jónsdóttir, móðir Áslaugar Mundu.

„Við fórum á EM 2017 í Hollandi, með Áslaugu Mundu og systur hennar, ásamt tveimur systkinum mínum og fjölskyldum og þetta heillaði okkur svona. Við vorum strax ákveðin í að missa ekki af næsta móti og keyptum öll miða, meðal annars Áslaug Munda. Það voru óvissumerki á lofti tengd þessu höfuðhöggi sem hún fékk í haust og í raun ekki góð batamerki fyrr en í vor. Það er risa­bónus að hún sé í hópnum, fái að upplifa EM sem ein af þessu frábæra liði.“

Áslaug sem kemur frá Egilsstöðum fluttist ung að árum til að leika með Breiðabliki.

„Það eru ótrúlegar fórnir að baki. Hún hefur átt þennan draum lengi. Ég held að það hafi verið þegar hún var tíu eða ellefu ára sem ég sá að hún var búin að skrifa hjá sér að markmiðið væri að komast í landsliðið. Þetta voru háleit markmið, en það getur verið gott að vera með stóra drauma og betra að sjá þá rætast.“