Cameron Smith, annar maður á heimslistanum í golfi og sigurvegari Opna breska meistaramótsins frá því í síðasta mánuði hefur ákveðið að ganga til liðs við LIV-mótaröðina í golfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mótaröðinni.

Þessi ástralski kylfingur hefur unnið tvö af stærstu mótum ársins á PGA-mótaröðinni og því um reiðarslag að ræða fyrir hina sögufrægu mótaröð. Smith hefur undanfarnar vikur verið orðaður við LIV-mótaröðina en neitaði staðfastlega að tjá sig um orðróminn.

LIV-mótaröðin er ný af nálinni en margir af þekktustu og bestu kylfingum í heimi hafa gengið til liðs við þessa nýjung sem er keyrð áfram með fjármagni frá Sádi-Arabíu.

Þá hafa Marc Leishman, Anirban Lahiri, Harold Varner III and Cameron Tringale einnig gengið til liðs við LIV-mótaröðina og munu þreyta frumraun sína á henni á móti í Boston síðar í vikunni.