Þegar mánuður er í fyrsta leik Íslands á Evrópumóti kvenna og tíu dagar í að liðið komi saman, kynnir Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, hópinn fyrir EM í dag. Þetta er fjórða skiptið í röð sem Ísland er meðal þátttökuþjóða og er líklegt að þrír einstaklingar fari á sitt fjórða stórmót.

Þorsteinn hefur möguleikann á að boða stærri hóp líkt og andstæðingar okkar í riðlakeppninni hafa gert og getur gert breytingar til 26. júní komi upp meiðsli.

Þorsteinn getur þakkað fyrir þann jákvæða hausverk að hafa úr breiðum hópi að velja enda varla nein alvarleg meiðsli að hrjá hópinn. Það þarf ekki að fara lengra en fimm ár aftur í tímann til að rifja upp þegar fjórir leikmenn slitu krossband í aðdraganda EM, ásamt öðrum meiðslum sem settu strik í reikning liðsins.

Líklegt er að þjálfarateymið haldi sig við sömu leikmenn og hafa verið að fá hlutverk hjá Þorsteini í undankeppni HM undanfarið ár, en þá eru ekki mörg sæti sem standa til boða fyrir þá sem hafa beðið eftir tækifæri.

„Ég á ekki von á einhverju óvæntu frá Þorsteini í dag. Það eru um 30 leikmenn sem hann hefur tekið inn á þessu rúma ári sínu í starfi og ég á ekki von á því að hann fari að taka neinn nýjan leikmann inn. Hvort hann boði stærri hóp í dag og skeri síðan niður, eins og önnur lið hafa gert, það er síðan eitthvað sem gæti verið sniðugt. Það yrði vont að velja 23 leikmenn og þurfa svo að bæta í ef það eru einhver spurningarmerki sem hann er með,“ segir Eiður Ben. Eiríksson, sem var í þjálfarateymi Íslandsmeistaraliðs Vals í fyrra, aðspurður hvort von væri á einhverju óvæntu nafni í hópnum.

„Manni finnst að með tilkomu Þorsteins hafi komið ákveðin íhaldssemi, bæði þegar kemur að leikaðferð og leikmönnum. Maður sá oft undir stjórn síðustu þjálfara að það var misjöfn áhersla eftir andstæðingum, á meðan Þorsteinn reynir að halda í sömu gildi óháð mótherjum.“

Allir burðarásar liðsins eru heilir og þarf Þorsteinn því ekki að ráðast í róttækar breytingar.

„Það verður áhugavert að sjá hvar nokkrir leikmenn standa, þótt hlutirnir séu farnir að líta betur út. Sara er farin að spila en það er ekki langt síðan hún eignaðist barn, Cecilía er nýkomin af stað eftir meiðsli, Alexandra spilaði lítið í vetur og Elín Metta og Berglind áttu erfitt í vetur. Þarna eru lykilleikmenn en þær virðast allar vera að koma til á réttum tíma.“

Eiður segir að það sé raunhæft að stefna á að komast áfram í riðlinum en um leið að það megi lítið bregða út af hjá íslenska liðinu.

„Það er ástæða til bjartsýni, en það þarf allt að ganga upp til þess. Ef það væru allir í toppstandi væri maður bjartsýnn á að stefna á að minnsta kosti átta liða úrslit,“ segir Eiður og heldur áfram:

„Þegar þú kemur inn á stórmót ertu með ákveðinn kjarna sem er að fara að spila flestar mínútur . Ef einhver lykilmaður dettur út verður þetta strax mun erfiðara. Þótt það sé ágætis breidd í hópnum erum við ekki með 23 leikmenn á heimsmælikvarða, þannig að við þurfum að hafa heppnina með okkur. Síðast varð liðið fyrir miklum skakkaföllum rétt fyrir mót, þegar lykilleikmenn duttu út rétt fyrir mót eftir óaðfinnanlega undankeppni.“