Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segist vera að eyða miklum tíma með leikmönnum liðsins á fundum til að undirbúa þær fyrir leikinn gegn Þýskalandi á laugardaginn.

„Það eru margir fundir að baki og framundan, ég þurfti að stytta minn í dag útaf fjölmiðlunum,“ sagði Freyr léttur og hélt áfram: „Þær eiga von á löngum fundi á morgun.“

Viðtalið í heild sinni við Frey má neðst í fréttinni.

„Einn af okkar styrkleikum er að við erum alltaf vel undirbúin og vitum hvað andstæðingurinn getur gert. Hvernig við getum refsað þeim. Það hafa margir tímar farið í að skoða þýska liðið og ég ræddi auðvitað við Söru um nokkra leikmenn þeirra.“

Kvennalandsliðið getur með sigri bókað sæti á lokakeppni HM í fyrsta sinn en jafntefli myndi duga liðinu ef þeim tekst að vinna Tékka í lokaumferðinni. 

„Undirbúningurinn gengur mjög vel, það er kannski útaf síðustu tvær æfingar hafa verið mjög leiðinlegar. Endurhæfing og meiri fókus á að ná heilsu. Það eru allir tilbúnir til að æfa og spennustigið er rétt stillt.“

Uppselt er á leikinn og verður Laugardalsvöllur í fyrsta sinn fullur á kvennalandsleik.

„Við höfum fengið að einbeita okkur að þessum leik og vitum að áhuginn á honum er raunverulegur og kemur frá hjartanu. Þetta verður stórt augnablik og stór leikur en við reynum bara að einblína okkur að fótboltanum. Tilhlökkunin er hinsvegar mikil eftir langa bið.“

Það hefur talsvert breyting átt sér stað á þýska hópnum.

„Varnarlínan er talsvert breytt og það hafa átt sér stað breytingar en breiddin í þessu liði er fáránleg. Leikmenn sem byrja leiki í mars eru ekki í hóp í dag. Það eru ákveðin tímamót hjá þeim, stóru nöfnunum fer fækkandi.“

Hann segir að Sara Björk sé á góðum stað en hún hefur náð sér af fullu af meiðslum sem hún varð fyrir í úrslitum Meistaradeldar Evrópu í vor. Hún hefur leikið nokkra æfingarleiki í sumar.

„Hún er búin að vinna vel í sínum málum og er alveg einkennalaus en auðvitað ekki búin að spila mikið eins og þýska liðið. Leikmenn þýsku deildarinnar eru ekki með marga leiki en Sara á eftir að vera frábær á laugardaginn eins og alltaf. Ég er viss um það.“

Hann segir að áhuginn á leiknum sé viðurkenning fyrir íþróttir kvenna.

„Það er frábært, þetta er stór áfangi fyrir íslensku þjóðina og íþróttir á Íslandi. Það er frábært að ná að fylla stærsta völl Íslands fyrir kvennalandsleik.“