Aron Pálmarsson, leikmaður Barcelona, mun bera fyrirliðabandið þegar Ísland hefur leik á HM í handbolta sem hefst í vikunni en þetta varð ljóst í dag.

Aron verður aðalfyrirliði í fyrsta sinn á stórmóti í fjarveru Guðjóns Vals Sigurðssonar sem er ekki í hópnum vegna meiðsla.

„Það er ömurlegt að fá svona fréttir stuttu fyrir mót, það myndu öll lið sakna leikmanns í gæðaflokki Guðjóns. Við eigum sem betur fer þrjá frábæra hornamenn í vinstra horninu og ég hef ekki áhyggjur af því að Stefán og Bjarki leysa þetta vel,“ sagði Aron þegar Fréttablaðiðið spjallaði við hann í dag.

„Guðjón er frábært eintak, bæði sem leikmaður og fyrirliði og stór karakter í hópnum en það þýðir ekkert að pæla í því úr þessu. Við fljúgum út á morgun og þurfum að vera klárir gegn Króatíu á fimmtudaginn.“

Stefán Rafn Sigurmannsson og Bjarki Már Elísson hafa barist um að fara með Guðjóni Vali á stórmót undanfarin ár en koma nú báðir inn í hópinn.

„“Stefán er búinn að vera frá síðustu daga vegna veikinda en við þekkjum báða tvo vel, þeir hafa verið í hópnum síðustu ár og við verðum bara að þjappa okkur saman í staðin fyrir að væla yfir þessu.“

Aðspurður tók Aron undir að það væri súrsætt að taka við fyrirliðabandinu undir þessum kringumstæðum.

„Ég er auðvitað mjög spenntur og stoltur af því að verða fyrirliði liðsins og er vel undirbúinn. Ég hef verið varafyrirliði en þetta er heiður þótt að það sé súrsæt tilfinning vitandi að Guðjón datt út,“ sagði Aron sem gerði ráð fyrir að vera í samskiptum við Guðjón Val.

„Við eigum örugglega eftir að vera í miklu sambandi á meðan mótinu stendur en ég hef lært mikið af eldri leikmönnum í gegnum tíðina og lært að vera í leiðtogahlutverki í þessu liði.“

Aron sagðist vera spenntur fyrir því að hefja leik.

„Það er kominn spenna í mann að byrja mótið og ég get ekki beðið eftir fyrsta leiknum. Við getum ekki látið svona tíðindi hafa áhrif á undirbúninginn né markmið okkar.“