Körfuboltadeild Tindastóls hefur náð samkomulagi við króatíska leikstjórnandann Nikolas Tomsick um að leika með karlaliði félagsins á næstu leiktíð. Það er feykir.is sem greinir frá þessu.

Tindastóll verður þar af leiðandi þriðja íslenska liðið sem Tomsick leikur með en hann er að endurnýja kynni sín við Baldur Þór Ragnarsson sem stýrði honum hjá Þór Þorlákshöfn.

Þá lék Tomsick með Stjörnunni síðasta vetur þar sem hann varð bikarmeistari. Þá var Stjarnan krýndur deildarmeistari þegar nýliðnu tímabili var hætt vegna kórónaveirufaraldursins.

„Við náðum að landa þessu í dag. Tomsick spilaði mjög vel með Stjörnunni í vetur og hefur sýnt fram á það að hann er hágæða leikmaður, þannig að þetta er klárlega góð viðbót við liðið,“ sagði Baldur Þór í samtali við feyki.is um sinn gamla og verðandi lærisvein.