Tindastóll átti fá svör við öflugum varnarleik Stjörnunnar í 79-58 sigri Garðbæinga í lokaleik 18. umferðar Dominos-deildar karla í kvöld og eru vonir Stólanna um að ná efstu liðum deildarinnar nánast úr sögunni.

Þetta var fimmta tap Tindastóls eftir áramót í sjö leikjum og halda Stólarnir áfram að fjarlægjast Njarðvík og Stjörnuna á toppi deildarinnar.

Á sama tíma eru Stjörnumenn búnir að vinna níu leiki í röð í deildakeppninni og alls tíu leiki í röð í öllum keppnum.

Leikurinn var jafn og spennandi fyrstu mínútur leiksins en Garðbæingar náðu að síga fram úr á lokamínútum annars leikhluta og leiddu 36-30 í hálfleik.

Hægt og bítandi juku Garðbæingar forskotið í seinni hálfleik og var löngu orðið ljóst að stigin tvö færu með Garðbæingum aftur til Reykjavíkur þegar leikurinn var flautaður af.

Þegar mest var fór munurinn upp í 27 stig í lokaleikhlutanum en Stólunum tókst aðeins að laga stöðuna á lokamínútum leiksins.

Brandon Rozzell var stigahæstur ásamt Tómasi Þórði Hilmarssyni með þrettán stig hjá gestunum þrátt fyrir að Brandon hafi verið lengi af stað og hitt illa í kvöld.

Hjá heimamönnum var það Pétur Rúnar Birgisson sem var stigahæstur með 13 stig.