Tindastóll tók ákvörðun eftir neyðarlegt tap gegn Stjörnunni í gær að skipta út Urald King og Michael Ojo fyrir  P.J. Alawoya sem lék með liðinu stuttu fyrir jól.

Stólarnir sem voru með eitt besta lið landsins fyrir áramót hafa brotlent og tapað sex af síðustu átta leikjum liðsins.

Greint er frá því á heimasíðu Feykis að King hafi verið að glíma við smávægileg meiðsli og því hafi verið ákveðið að kalla aftur inn Alawoya.

Alawoya kom inn í lið Stólanna í síðustu leikjum liðsins fyrir jól þegar King fór heim til að vera viðstaddur fæðingu barnsins síns.

Með Alawoya vann Tindastóll alla leiki sína og var því tekin ákvörðun að kalla hann inn á ný.

King var með 20,3 stig og 11,3 frákast að meðaltali í þeim leikjum sem hann lék fyrir Stólana.

Á sama tíma var ákveðið að rifta samningi við Ojo sem kom aðeins við sögu í þremur leikjum.