Búið er að úthluta styrkjum til níu kvenna, þar af sex Ólympíu­fara sem fá tíu þúsund dali hver, eða um 1,2 milljónir íslenskra króna. Þá er búið að opna fyrir umsóknarferli í næstu úthlutun sem verður tilkynnt í október.

„Þetta er frábært skref fram á við og í takt við það sem hún hefur verið að gera. Það hefur ótrúlega margt breyst á stuttum tíma frá því að hún steig fram og sagði frá því hvernig Nike fór fram í samningaviðræðum við hana og hvernig hún var hvött til þess að fela óléttuna. Þá stigu fleiri konur fram og lýstu sömu tilfinningu, að þetta væri mjög viðkvæmt,“ segir Ásdís Hjálmsdóttir, formaður íþróttamannanefndar ÍSÍ og fyrrum spjótkastari, aðspurð út í nýjasta verkefni Felix.

Felix er sigursælasta íþróttakona heims í frjálsum íþróttum eftir að hafa unnið til sex gullverðlauna á Ólympíuleikunum og þrettán gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum utanhúss. Hún mun keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó sem verða hennar fimmtu Ólympíuleikar og um leið þeir síðustu.

Hún gaf það út eftir að hafa tryggt sér þátttökurétt í Tókýó að þetta yrðu hennar síðustu Ólympíuleikar. Frægt er þegar Felix greindi frá því í samtali við New York Times árið 2019 að hún hefði ákveðið að slíta samstarfinu við Nike vegna viðhorfs fyrirtækisins til íþróttakvenna sem hafa hug á barneignum.

Þá var hún búin að vera eitt af helstu andlitum fyrirtækisins í frjálsum íþróttum í tæplega tvo áratugi, en samningstilboð Nike var aðeins brot af því sem hún hafði áður fengið. Nike breytti síðar áherslum sínum þegar kemur að barnsburði kvenna, en Felix samdi frekar við Athleta, íþróttavörufyrirtæki GAP.

„Þetta getur verið erfitt val fyrir íþróttakonur. Ég tók sjálf ákvörðun um að bíða þar til eftir ferilinn með barneignir, en það er margt sem þarf að huga að þegar kemur að þessari ákvörðun. Það er endurhæfingarferlið sem er mismunandi milli kvenna til viðbótar við fjárhagslegu hliðina sem er verið að vinna í að bæta,“ segir Ásdís, aðspurð hvaða þýðingu þessi sjóður geti haft.