Það var Svíinn Mattias Ekström sem bar sigur úr býtum í Race of Champions sem fór fram í Pite Havsbad í Svíþjóð um síðastliðna helgi. Þar atti hann kappi við, og vann, Mick Schumacher, Formúlu 1 ökumann og son goðsagnarinnar Michael Schumacher.
Í Race of Champions er hæfileikaríkum og goðsagnakenndum ökumönnum úr mismunandi tegundum mótorsports komið fyrir í einni og sömu keppninni þar sem þeir berjast við hvorn annan innan brautar í einvígum og í þetta skiptið var ekið við krefjandi aðstæður á ísilögðu vatni í Pite Havsbad.
Svo fór að í úrslitaviðureigninni í einstaklingskeppninni mættust Mattias Ekström og Mick Schumacher sem var ansi sérstakt sökum þess að Ekström atti kappi við föður Micks, sjöfalda Formúlu 1 heimsmeistarann Michael Schumacher í sömu keppni á árum áður.
Eins og flestir vita lenti Michael í alvarlegu skíðaslysi eftir að Formúlu 1 ferli hans lauk árið 2013. Lítið er vitað um líðan hans síðan þá og það snerti greinilega við Ekström, í viðtali eftir keppni, að hafa verið að keppa á móti Mick.
„Fyrir mér er þetta hér miklu mikilvægara en það að vinna keppnina,“ sagði Ekström í viðtali eftir Race of Champions. „Allir vita að ég keppti tvisvar sinnum í úrslitum gegn Michael Schumacher þegar að hann var hér, það var því frábært að geta keppt á móti Mick og tilfinningaþrungið fyrir mig vegna þess að ég átti aðeins frábærar stundir með Michael í þessum keppnum.
Að sjá son hans í úrslitum er yndislegt , ég er yfir mig stoltur af honum. Hann er hæfileikaríkur ökumaður og á góða tíma fram undan. Ég hlakka til frekari viðureigna við hann og veit að það mun ekki taka langan tíma þar til hann hefur betur gegn mér, en ég myndi sætta mig við að tapa fyrir honum.“
Viðtalið við Ekström og Mick má sjá hér fyrir neðan:
After winning two ROC finals against Michael Schumacher in the past, an emotional @mattiasekstroem says facing @SchumacherMick today was extra special. 🙏🙏#ROCSweden pic.twitter.com/8zZqbLOJML
— #ROCSweden (@RaceOfChampions) January 29, 2023