Bandaríska hafnaboltadeildin ákvað að stjörnuleikurinn í ár skyldi færður til að mótmæla nýjum lögum í Georgíu. Það hefur færst í aukana að viðburðir séu færðir vegna ákvarðana stjórnvalda.
Um helgina var staðfest að stjörnuleikurinn í bandaríska hafnaboltanum yrði færður frá Atlanta í Georgíuríki yfir til Denver, eftir að kallað var eftir því að leikurinn yrði færður til að mótmæla umdeildri löggjöf í Georgíu.
Þetta er í þriðja sinn það sem af er ári þar sem viðburður af slíkri stærðargráðu er færður vegna pólitískra ákvarðana. Á sama tíma eru sífellt fleiri leikmenn að berjast fyrir því að HM í Katar á næsta ári verði fært vegna mannréttindabrota í garð verkamanna þar í landi.
Fréttablaðið tók saman dæmi þar sem pólitískur þrýstingur hafði áhrif á að viðburðir voru færðir til vegna ákvarðana stjórnvalda.
Tóku mótið af Minsk
Alþjóða íshokkísambandið, IIHF, tilkynnti í byrjun þessa árs að ákvörðun hefði verið tekin um að efsta deild HM í íshokkíi skyldi ekki fara fram í Minsk og að Riga þyrfti að sjá um mótið upp á eigin spýtur.
Sú ákvörðun var tekin, að sögn stjórnar IIHF, með öryggi leikmanna í huga. Var tekið tillit til viðbragða stjórnvalda í Belarús í kórónaveirufaraldrinum sem og óánægju íbúa með stjórnarhætti ríkisvaldsins eftir hörð mótmæli íbúa landsins þegar ljóst var að Alexander Lúkasjenkó yrði áfram forseti.
Ákvörðun IIHF var hins vegar tekin aðeins þremur dögum eftir að tékkneski bílaframleiðandinn Skoda, sem hefur verið einn helsti styrktaraðili mótsins undanfarna áratugi, hótaði að slíta samstarfinu ef mótið færi fram í Belarús.

Deilur Trump og PGA mótaraðarinnar
Eftir óeirðirnar við þinghúsið í Washingtonborg og aðild Donalds Trump að þeim ákvað framkvæmdastjórn PGA, stærstu golfmótaraðar heims, að rifta samkomulagi um að PGA meistaramótið, eitt af fjórum risamótum ársins, færi fram á velli í eigu Trumps árið 2022.
Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem stjórn PGA tók ákvörðun um að færa mót af mótaröðinni af velli í eigu Trumps, en árið 2015 átti Grand Slam mótið að fara fram á velli Trumps í Los Angeles en hætt var við þær áætlanir eftir ummæli fyrrverandi Bandaríkjaforsetans um innflytjendur frá Mexíkó.
Þrátt fyrir nýleg fordæmi um að mót séu færð til vegna slíkra aðstæðna tilkynnti PGA að lokamót FedEx-mótaraðarinnar (e. Tour Championship), yrði áfram í Georgíufylki og Mastersmótið, fyrsta risamót ársins, hefst í Georgíufylki í þessari viku.

Stjörnuleikur færður vegna nýrrar löggjafar
Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna aðra sambærilega ákvörðun og þá sem MLB-deildin tók um helgina þar sem deildarkeppni brást við umdeildum lögum.
Árið 2016 ákvað NBA-deildin í körfubolta í Bandaríkjunum að færa stjörnuleikinn sem átti að fara fram árið 2017 frá Charlotte í Norður-Karólínu til New Orleans, eftir að umdeild lög sem komu niður á LGBT fólki voru samþykkt í Norður-Karólínu.
Löggjöfin neyddi fólk til þess að velja baðherbergi eftir því hvert kyn þeirra var við fæðingu en löggjöfinni var breytt í ársbyrjun 2017 og var þá ákveðið að stjörnuleikurinn árið 2019 færi fram í Charlotte.
Þetta var í fyrsta sinn sem íþróttaviðburður af slíkri stærðargráðu í Bandaríkjunum var færður vegna pólitísks ágreinings í tæp þrjátíu ár, eða síðan SuperBowl var fært frá Arizona fyrir að neita að viðurkenna fæðingardag Martins Luthers King sem almennan frídag.

Deilan um kosningarétt í Georgíu
Bandaríska hafnaboltadeildin, MLB, tilkynnti um helgina að ákveðið hefði verið að stjörnuleikurinn þetta árið skyldi færður frá Atlanta vegna umdeildrar löggjafar sem samþykkt var í Georgíufylki á dögunum. Í fyrradag var svo staðfest að leikurinn skyldi fara fram í Denver.
Hefði leikurinn farið fram í Atlanta hefði það verið í þriðja sinn sem borgin hýsti stjörnuleikinn í hafnabolta og í fyrsta sinn á nýjum heimavelli Atlanta Braves, hafnaboltaliðs borgarinnar.
Kallað var eftir því að MLB myndi grípa til aðgerða eftir að ný kosningalög voru samþykkt í Georgíu sem halla á rétt minnihlutahópa í fylkinu til að kjósa. Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, tók undir beiðnina um að leikurinn yrði færður og varð deildin við því, ásamt því að færa nýliðaval deildarinnar sem átti að fara fram í Atlanta síðar á þessu ári.
Í kjölfar ákvörðunarinnar hafa Repúblikanar mótmælt harðlega, meðal annars Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sem kallaði eftir því að fólk myndi sniðganga hafnabolta yfir höfuð. Þá sagði fylkisstjóri Georgíu að þetta væri heigulsháttur hjá forráðamönnum deildarinnar.