Banda­ríska hafna­bolta­deildin á­kvað að stjörnu­leikurinn í ár skyldi færður til að mót­mæla nýjum lögum í Georgíu. Það hefur færst í aukana að við­burðir séu færðir vegna á­kvarðana stjórn­valda.

Um helgina var stað­fest að stjörnu­leikurinn í banda­ríska hafna­boltanum yrði færður frá At­lanta í Georgíu­ríki yfir til Den­ver, eftir að kallað var eftir því að leikurinn yrði færður til að mót­mæla um­deildri lög­gjöf í Georgíu.

Þetta er í þriðja sinn það sem af er ári þar sem við­burður af slíkri stærðar­gráðu er færður vegna pólitískra á­kvarðana. Á sama tíma eru sí­fellt fleiri leik­menn að berjast fyrir því að HM í Katar á næsta ári verði fært vegna mann­réttinda­brota í garð verka­manna þar í landi.

Frétta­blaðið tók saman dæmi þar sem pólitískur þrýstingur hafði á­hrif á að við­burðir voru færðir til vegna á­kvarðana stjórn­valda.

Tóku mótið af Minsk

Al­þjóða ís­hokkí­sam­bandið, IIHF, til­kynnti í byrjun þessa árs að á­kvörðun hefði verið tekin um að efsta deild HM í ís­hokkíi skyldi ekki fara fram í Minsk og að Riga þyrfti að sjá um mótið upp á eigin spýtur.

Sú á­kvörðun var tekin, að sögn stjórnar IIHF, með öryggi leik­manna í huga. Var tekið til­lit til við­bragða stjórn­valda í Bela­rús í kóróna­veirufar­aldrinum sem og ó­á­nægju íbúa með stjórnar­hætti ríkis­valdsins eftir hörð mót­mæli íbúa landsins þegar ljóst var að Alexander Lúka­­sjen­kó yrði á­fram for­seti.

Á­kvörðun IIHF var hins vegar tekin að­eins þremur dögum eftir að tékk­neski bíla­fram­leiðandinn Skoda, sem hefur verið einn helsti styrktar­aðili mótsins undan­farna ára­tugi, hótaði að slíta sam­starfinu ef mótið færi fram í Bela­rús.

Collin Morikawa vann PGA meistaramótið í fyrra.
Fréttablaðið/Getty

Deilur Trump og PGA mótaraðarinnar

Eftir ó­eirðirnar við þing­húsið í Was­hington­borg og aðild Donalds Trump að þeim á­kvað fram­kvæmda­stjórn PGA, stærstu golf­mótaraðar heims, að rifta sam­komu­lagi um að PGA meistara­mótið, eitt af fjórum risa­mótum ársins, færi fram á velli í eigu Trumps árið 2022.

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem stjórn PGA tók á­kvörðun um að færa mót af móta­röðinni af velli í eigu Trumps, en árið 2015 átti Grand Slam mótið að fara fram á velli Trumps í Los Angeles en hætt var við þær á­ætlanir eftir um­mæli fyrr­verandi Banda­ríkja­for­setans um inn­flytj­endur frá Mexíkó.

Þrátt fyrir ný­leg for­dæmi um að mót séu færð til vegna slíkra að­stæðna til­kynnti PGA að loka­mót FedEx-mótaraðarinnar (e. Tour Champions­hip), yrði á­fram í Georgíu­fylki og Masters­mótið, fyrsta risa­mót ársins, hefst í Georgíu­fylki í þessari viku.

Stjörnuleikurinn var færður árið 2017 en fór svo fram í Charlotte tveimur árum síðar.
Fréttablaðið/Getty

Stjörnu­leikur færður vegna nýrrar lög­gjafar

Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna aðra sam­bæri­lega á­kvörðun og þá sem MLB-deildin tók um helgina þar sem deildar­keppni brást við um­deildum lögum.

Árið 2016 á­kvað NBA-deildin í körfu­bolta í Banda­ríkjunum að færa stjörnu­leikinn sem átti að fara fram árið 2017 frá Char­lotte í Norður-Karó­línu til New Or­leans, eftir að um­deild lög sem komu niður á LGBT fólki voru sam­þykkt í Norður-Karó­línu.

Lög­gjöfin neyddi fólk til þess að velja bað­her­bergi eftir því hvert kyn þeirra var við fæðingu en lög­gjöfinni var breytt í árs­byrjun 2017 og var þá á­kveðið að stjörnu­leikurinn árið 2019 færi fram í Char­lotte.

Þetta var í fyrsta sinn sem í­þrótta­við­burður af slíkri stærðar­gráðu í Banda­ríkjunum var færður vegna pólitísks á­greinings í tæp þrjá­tíu ár, eða síðan Super­Bowl var fært frá Ariz­ona fyrir að neita að viður­kenna fæðingar­dag Martins Lut­hers King sem al­mennan frí­dag.

Deilan um stjörnuleik MLB hefur vakið mikla athygli.
Fréttablaðið/Getty

Deilan um kosninga­rétt í Georgíu

Banda­ríska hafna­bolta­deildin, MLB, til­kynnti um helgina að á­kveðið hefði verið að stjörnu­leikurinn þetta árið skyldi færður frá At­lanta vegna um­deildrar lög­gjafar sem sam­þykkt var í Georgíu­fylki á dögunum. Í fyrra­dag var svo stað­fest að leikurinn skyldi fara fram í Den­ver.

Hefði leikurinn farið fram í At­lanta hefði það verið í þriðja sinn sem borgin hýsti stjörnu­leikinn í hafna­bolta og í fyrsta sinn á nýjum heima­velli At­lanta Bra­ves, hafna­bolta­liðs borgarinnar.

Kallað var eftir því að MLB myndi grípa til að­gerða eftir að ný kosninga­lög voru sam­þykkt í Georgíu sem halla á rétt minni­hluta­hópa í fylkinu til að kjósa. For­seti Banda­ríkjanna, Joe Biden, tók undir beiðnina um að leikurinn yrði færður og varð deildin við því, á­samt því að færa ný­liða­val deildarinnar sem átti að fara fram í At­lanta síðar á þessu ári.

Í kjöl­far á­kvörðunarinnar hafa Repúblikanar mót­mælt harð­lega, meðal annars Donald Trump, fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna, sem kallaði eftir því að fólk myndi snið­ganga hafna­bolta yfir höfuð. Þá sagði fylkis­stjóri Georgíu að þetta væri heiguls­háttur hjá for­ráða­mönnum deildarinnar.