Hallsteinn Arnarson lýkur meistaranámi (Executive MBA) í „sports management“ við Real Madrid Graduate School í júlí. Námið er samstarfsverkefni Real Madrid og Evrópuháskólans í Madrid. Félagið er fyrirmynd margra annarra þekktra íþróttafélaga, til dæmis varðandi stjórnun og rekstur, bestu vinnubrögð og góða stjórnarhætti.

„Í náminu hef ég lært um flest sem snýr beint að íþróttum og íþróttatengdri starfsemi, eins og stjórnun og fjármálum/rekstri íþróttafélaga, íþróttasambanda og íþróttamannvirkja, stefnumótun og stjórnarháttum félaga og sambanda, skipulagningu íþróttaviðburða, markaðssetningu, lög og siðferði, frumkvöðlafræði, tækninýjungar og samskiptamál.

Við lærum allt það sama og kennt er í hefðbundnu MBA-námi, en að auki lærum við um sérstöðu íþrótta. Það eru mörg atriði sem aðgreina íþróttir og íþróttastarfsemi frá öðrum vörum og þjónustu og frá annarri starfsemi, til dæmis stjórnun og rekstri venjulegra fyrirtækja. Kennararnir leggja til að mynda mikla áherslu á mikilvægi faglegrar þekkingar við stjórnun íþróttafélaga og -sambanda og að forystufólk sem starfar við íþróttir skilji vel eðli þeirra.“

Hallsteinn segir að rekstur íþrótta- og ungmennafélaga, sérstaklega deilda stærri boltagreina innan félaga, hafi alltaf verið og muni líklega alltaf verða erfiður – nema starfsumhverfið breytist verulega. Félögin og deildirnar séu mjög háð stuðningi velviljaðra fyrirtækja og ríkis og sveitarfélaga og reksturinn sé því afar viðkvæmur. Íþrótta- og ungmennafélögin megi illa við stórum skelli á borð við COVID-19. Ljóst sé að mörg félög og deildir hafi spennt bogann of hátt síðustu ár og staða þeirra verið strembin fyrir útbreiðslu faraldursins.

Félögin ættu að leggja meiri rækt við félagslega þáttinn og virkja betur félagsandann innan félaganna segir Hallsteinn.

Sömu grunnlögmál

Sömu grunnlögmál gilda, samkvæmt Hallsteini, hvort sem um er að ræða Real Madrid, Dallas Cowboys, FH, Leikni, KR eða önnur íþróttafélög eða íþróttasambönd líkt og ÍSÍ og NBA, nú eða íþróttagreinar á borð við golf, hafnabolta og handbolta – jafnvel þó að umsvifin séu mun meiri erlendis og fjármálahliðin allt önnur.

„Það er unnið blómlegt starf í félögunum og fólkið sem stýrir þeim og deildunum innan þeirra á Íslandi stendur sig að mörgu leyti ágætlega við krefjandi aðstæður og í sjálfboðaliðastarfi. En ég tel engu að síður að stjórnir og aðrir stjórnendur margra félaga og deilda, ættu að nýta tækifærið núna til að endurskoða sín mál rækilega, sérstaklega rekstrarlíkönin að baki afreksstarfinu. Í krísuástandi er oft ágætt að staldra aðeins við og fara yfir stöðuna.

Félögin byggja á góðum grunni og ég skora á stjórnendur að skoða vel hvort þeir og félögin séu að starfa í samræmi við gildi, hlutverk, markmið og stefnu félaganna. Vita stjórnendur hvað félögin vilja standa fyrir og hvernig þau vilja vera í framtíðinni? Er verið að vinna eftir skýrri og markvissri stefnu við að ná fyrir fram skilgreindum markmiðum hennar?

Mörg félög eiga sér glæsta sögu sem ber að vernda og varðveita á sama tíma og þau verða að aðlagast breytingum í umhverfinu.“

Hallsteinn leggur til að félögin vandi sig þegar þau velja fólk í sínar stjórnir og mikilvægast er að valdir séu einstaklingar sem hafi eitthvað fram að færa og séu tilbúnir að vinna fórnfúst og frekar vanþakklátt starf í þágu félagsins.

„Það er lítið gagn í máttlausum og meðvirkum stjórnarmönnum. Formenn félaga og deilda verða að hafa getu til að sameina félagsmenn, útdeila verkefnum og virkja sjálfboðaliða, sérstaklega á tímum sem þessum. Sterkir leiðtogar eiga ekki að þurfa að hafa já-fólk í kringum sig.“

Aðgengilegri stjórnendur

Hann segir að sín skoðun sé sú að stjórnendur félaganna ættu að vera miklu aðgengilegri og sýnilegri og vera meira með puttann á púlsinum varðandi upplifun og væntingar iðkenda, foreldra og forráðamanna og stuðningsmanna um félagið og starfið.

„Stjórnendur gætu til að mynda fundað oftar með aðstandendum iðkenda um starfið og kannað ánægju þeirra og hvað megi bæta. Einnig gætu þeir haldið fleiri fræðslu- og kynningarfundi fyrir aðstandendur þar sem til dæmis þjálfarar fara vel yfir þætti þjálfunarinnar og hvetja aðstandendur til að styðja á réttan og uppbyggilegan hátt við bakið á börnum sínum – og sýna jákvæða hegðun á hliðarlínunni.“ Þá bendir hann á að orðið íþróttafélag sé samsett úr tveimur orðum. Seinna orðið vísar til félagsskapar. „Þó svo fjármál og mannvirki séu vissulega mikilvæg hverju íþróttafélagi, mega menn og konur ekki gleyma því að félögin eru ekkert nema fólkið sem myndar þau. Félögin ættu að leggja meiri rækt við félagslega þáttinn, virkja betur félagsandann innan félaganna svo að félagsmenn samsami sig meira félögunum og gildum þeirra, og vilji tilheyra þeim alla ævi. Að eldri félagar, sem hafa kannski unnið gríðarmikið starf fyrir félögin í gegnum árin, séu heiðraðir og finnist þeir ávallt velkomnir í kaffi.“

Hallsteinn þekkir vel til í Hafnarfirði. Hann segir að félögin eigi að vinna meira saman utan vallar.

Félög eiga að tengjast hverfum

Hann segir að félögin eigi að vera sameiningartákn bæjarfélaga, eða hverfa innan þeirra. Fjölmörg félög beri heiti síns bæjarfélags í nafni sínu, eins og Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) og Knattspyrnufélag Reykjavíkur (KR). „Félögin ættu að tengja sig miklu betur við sitt nærumhverfi, bæjarfélögin og hverfin. Þau ættu að skipuleggja og setja upp annars konar viðburði heldur en íþróttaviðburði fyrir fólkið í bæjarfélögunum og hverfunum, aðstoða við mikilvæg mál í sínum sveitarfélögum og hverfum og leggja meira af mörkum til samfélagsins. Einnig ættu félögin að kynna sér betur starf erlendra íþróttafélaga og tækninýjungar í tengslum við íþróttir og íþróttastarf.“

Stóru aðstoði þau smærri

Hann vill einnig sjá félögin deila reynslu og þekkingu sín á milli. Stærri félög ættu að aðstoða þau sem smærri eru.

„Að lokum hvet ég félög og deildir þeirra til að starfa miklu meira beint með öðrum félögum og deildum. Mér finnst til dæmis að FH og Haukar í Hafnarfirði ættu að vinna meira saman. Bæði félög eiga sér langa sögu og tengingar eru milli þeirra.

Félög eiga að keppa sín á milli með heiðarlegum hætti inni á vellinum, en utan vallar ættu þau að deila reynslu og þekkingu sín á milli, og styðja hvert við annað í meira mæli en áður. Íþrótta- og ungmennafélögin ættu að tileinka sér, og starfa meira eftir ábyrgum og vönduðum stjórnarháttum, á borð við gagnsæi, upplýsingagjöf og samfélagslega ábyrgð, til að byggja upp betri ímynd og meira traust og trúverðugleika.

Hluti af slíkri samvinnu og vinnubrögðum gæti verið að gera fjármál félaganna enn skýrari og sýnilegri, aðgreina rekstur mannvirkja og svo framvegis. Mögulega ættu félögin að taka upp erlenda mælikvarða eða setja sér eigin viðmið í tengslum við lykiltölur úr rekstrinum, sem þau öll myndu reyna að virða eftir fremsta megni. Það veitti þeim ákveðið aðhald og með því sýndu þau ábyrga fjármálastjórn, gott fordæmi og væru öðrum til eftirbreytni. Að mínu mati myndi það líka auka tiltrú styrktaraðila og sveitarfélaga og eyða vangaveltum um fjárhagsstöðu félaganna, auk þess að efla bæði félögin og íþróttalíf almennt í landinu.“

Hallsteinn Arnarson.