Stjarnan sem er ríkjandi deildar- og bikarmeistari hafði betur þegar liðið atti kappi við ríkjandi Íslandsmeistara, KR, í meistarakeppni KKÍ í Origo-höllinni að Hlíðarenda í dag.

Eftir jafnan fyrir hálfeik voru KR-ingar 45-42 yfir en þriðji leikhluti var eign Stjörnumanna sem höfðu betu í þeim leikhluta 32-12 og lögðu þar grunninn að sigrinum.

Kyle Johnson sem kom til Stjörnunnar í sumar var stigahæstur hjá liðinu með 21 stig og annar nýr leikmaður liðsins Jamar Akhor kom næstur með 18 stig. Nicholas Tomsick sem færði sig um set frá Þór Þorlákshöfn til Stjörnunnar eftir síðustu leiktíð skoraði svo 13 stig.

Arnþór Freyr Guðmundsson og Hlynur Elías Bæringsson skoruðu svo 12 stig hvor fyrir Stjörnuna.

Matthías Orri Sigurðarson sem kom heim í Vesturbæinn frá ÍR síðastliðið var hins vegar atkvæðamestur hjá KR með 18 stig og Brynjar Þór Björnsson sem kom á heimahagana frá Tindastóli og Mike Craion sem gekk í raðir KR á nýjan leik frá Keflavík komu þar á eftir með 17 stig hvor.

Domino's-deild karla hefst á miðvikudaginn kemur en Stjarnan hefur aftur á móti leik á fimmtudagskvöldið þegar liðið sækir Þór Þorlákshöfn heim. KR leikur svo lokaleik fyrstu umferðarinnar gegn Grindavík í DHL-höllinni í Vesturbænum á föstudaginn kemur.