Fram og Stjarnan unnu leiki sína í fyrstu leikjum fimmtu umferðar Olís-deildar karla í dag gegn Akureyrarliðunum KA og Akureyri. Er þetta fyrsti sigur tímabilsins hjá Stjörnunni en annar sigur Fram sem fer upp í 5. sæti.

Garðbæingar voru búnir að tapa öllum leikjunum til þessa og voru þyrstir í fyrsta sigur tímabilsins, sérstaklega eftir rasskellinn sem þeir fengu gegn Val á heimavelli á dögunum.

Eftir að jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins tóku Garðbæingar yfir leikinn og náðu góðu forskoti undir lok fyrri hálfleiksins sem KA tókst aldrei að saxa á. 

Var síðari hálfleikurinn því lengst af í rólegri kantinum enda Stjarnan með níu marka forskot frá upphafi seinni hálfleiks. Unnu Garðbæingar því sannfærandi níu marka sigur 30-21.

Það var heldur meiri spenna þegar Fram tók á móti Akureyri í Safamýrinni þar sem Fram vann nauman 26-25 sigur. Fram byrjaði báða hálfleikana í dag mun betur og náðu góðu forskoti en Akureyringar neituðu að gefast upp.

Fékk Akureyri átta sekúndur í lokasókn en fór illa að ráði sínu og köstuðu gestirnir frá sér boltanum þegar þeir áttu möguleika á því að jafna metin.