Stjarnan og Breiðablik fengu andstæðinga sína í fyrstu umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla í heimsókn í kvöld.

Stjörnumenn báru sigurorð af eistneska liðinu Levadia 2-1 en það var Þorsteinn Már Ragnarsson sem skoraði bæði mörk Stjörnunnar í leiknum.

Þorsteinn Már kom Stjörnunni yfir á 15. mínútu leiksins en hann fékk þá stungusendingu frá Daníel Laxdal sem hafði unnið boltann af harðfylgi og kláraði færið af stakri prýði.

Heimamenn hefðu átt að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik þegar Martin Rauschenberg skallaði boltann í átt að marki Levadia og Dmitri Kruglov bjargaði á línu með hendinni.

Garðbæingar fengu svo kjörið tækifæri til þess að auka forystu sína þegar liðið fékk vítaspyrnu um miðbik seinni hálfleiks.

Sergei Lepmets hrinti þá og felldi Ævar Inga Jóhannesson eftir að hafa handsamað boltann en Lepmets bjargaði eigin skinni með því að verja víti Hilmars Árna Halldórssonar.

Hilmar Árni bætti fyrir vítaklúðrið með því að leggja upp seinna mark Þorsteins Más í leiknum þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Nikita Andreev setti seinni leik liðanna í annað samhengi með því að minnka muninn fyrir Levadia skömmu eftir að Þorsteinn Már kom Stjörnunni 2-0 yfir.

Breiðablik og Vaduz frá Liechtenstein gerðu svo markalaust jafntefli í leik liðanna á Kópavogsvellinum.

Liðin mætast í seinni leikjum sínum í Eistalandi og Liechtenstein eftir slétta viku.