Stjarnan úr Garðabæ var sigursælust í Geysisbikarvikunni í körfubolta. Fjögur Stjörnulið unnu sína úrslitaleiki.

Meistaraflokkur karla hjá Stjörnunni varð bikarmeistari í gær og í dag urðu 9. flokkur drengja og drengjaflokkur Stjörnunnar einnig bikarmeistarar. Á föstudaginn varð 10. flokkur drengja hjá Stjörnunni bikarmeistari.

Í úrslitum í drengjaflokki vann Stjarnan Fjölni, 77-87. Dúi Þór Jónsson, sem kom aðeins við sögu í úrslitaleik meistaraflokks í gær, skoraði 24 stig, tók ellefu fráköst og gaf tólf stoðsendingar. Friðrik Anton Jónsson skoraði 24 stig og tók 23 fráköst.

Í úrslitum 9. flokks drengja bar Stjarnan sigurorð af Haukum, 72-54. Óskar Gabríel Guðmundsson var stigahæstur Stjörnumanna með 31 stig. Ágúst Goði Kjartansson var langatkvæðamestur Hauka með 37 stig.

Keflavík vann KR, 69-73, í úrslitaleik stúlknaflokks. Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 24 stig fyrir Keflavík.

Keflavík hrósaði einnig sigri í 9. flokki stúlkna. Keflvíkingar báru þar sigurorð af Njarðvíkingum, 64-35. Agnes María Svansdóttir skoraði 23 stig fyrir Keflavík.

Njarðvík varð bikarmeistari í unglingaflokki eftir sigur á KR, 88-104, í úrslitaleiknum. Arnór Sveinsson skoraði 26 stig fyrir Njarðvíkinga og Jón Arnór Sverrisson var með myndarlega þrennu; 24 stig, 16 fráköst og tólf stoðsendingar.

Á föstudaginn varð Grindavík bikarmeistari í 10. flokki stúlkna og Stjarnan í 10. flokki drengja. Valur varð svo bikarmeistari í meistaraflokki kvenna í gær.