Breiðablik, Stjarnan og Valur unnu öll leiki sína í Pepsi Max-deild karla í kvöld og styrktu stöðu sína í baráttunni um Evrópusæti á næsta ári.

Blikar eru því áfram í öðru sæti, Stjarnan skaust upp í þriðja sætið og Valur er í því fjórða.

Blikar léku á alls oddi í 4-0 sigri á KA í kvöld þar sem Thomas Mikkelsen skoraði tvívegis.

Leikurinn var heldur jafnari á Origo-vellinum þar sem Patrick Pedersen skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks.

Þá tókst Stjörnunni að vinna fjórða leikinn af síðustu sex gegn Víkingi R. þar sem Garðbæingar skoruðu tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks.

Óttar Magnús Karlsson minnkaði muninn í fyrsta leik sínum í sumar fyrir uppeldisfélag sitt en lengra komust gestirnir ekki.