Í bréfi Stjörnunnar til bæjarins, sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í gær, segir að undanfarin ár með tilkomu nýrra kjarasamninga hafa almennar launahækkanir haft töluverð áhrif á rekstur félagsins. Á sama tíma hefur styrkur bæjarins ekki fylgt eftirfarandi hækkunum eða vísitölu sem hefur gert rekstur stoðsvið félagsins þyngri með hverju árinu. Ljóst er að félagið á ekki annarra kosta völ en að færa kostnað af starfsmannahaldi stoðsviðs út í æfingagjöld á næsta ári ef styrktarupphæð verður ekki leiðrétt.

Bæjarráð vísaði bréfinu til nánari skoðunar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.

Stjarnan sendi einnig bréf á bæinn varðandi aðstöðumál íþróttamannvirkja en iðkendum hefur fjölgað mikið eins og bæjarbúum. Segir að félagið sé að sprengja af sér þá húsakosti sem starf félagsins fari fram í. Er bent á að í fimleikasalnum hafi ekki verið brugðist við ábendingum fyrr en eftir eftir að alvarleg slys áttu sér stað. Braut iðkandi hælbein og fékk skurð í andlit svo fátt eitt sé nefnt segir í bréfinu. „Mikið af þeim búnaði sem keyptur var þegar húsið var byggt er kominn á tíma og stenst ekki öryggis staðla lengur þar sem ráðlagður líftími þeirra er liðinn,“ segir í bréfinu.

Þá er bent á að 20 ár eru liðin síðan TM höllin var byggð og líftími gólfsins sé liðin. „Ítrekað er að koma upp að leikmenn fara í gegnum gólffjalirnar og viðgerðum með tilfallandi kostnaði aukist.

Dæmi um þetta átti sér stað í leik meistaraflokks karla á síðasta tímabili þar sem einn léttasti leikmaður liðsins tekur stökk úr horninu og lendir inni í teignum með þeim afleiðingum að olnbogi hans fer í gegnum gólffjölina,“ segir í bréfinu.

Loks er bent á að það þurfi að skipta um perur á vallarstæði Stjörnunnar enda hafi borið á kvörtunum frá nágrönnum vallarsvæðis Stjörnunnar vegna ljósanotkunar þegar engar æfingar eru í gangi. Gömul ljós eru og ekki hægt að kveikja eða slökkva þar sem kerfið þarf langan tíma til að kæla sig og svo aftur tíma til að hita sig upp aftur. Mun ódýrara væri að notast við LED lýsingu.