Garðbæingar lentu í örlitlum vandræðum framan af en kafsigldu Hauka í seinni hálfleik í 107-76 sigri á Ásvöllum í kvöld sem innsiglaði deildarmeistatitilinn með sigrinum og um leið heimaleikjarétt út úrslitakeppnina.

Er þetta í fyrsta sinn sem Stjarnan tryggir sér deildarmeistaratitilinn í karlaflokki.

Stjarnan þurfti að vinna leikinn í kvöld og þá væri titilinn þeirra en Haukar héldu í við Garðbæinga framan af í kveðjuleik Ívars Ásgrímssonar sem þjálfara liðsins.

Munurinn var aðeins eitt stig í hálfleik en í seinni hálfleik gerði Stjarnan snemma út um leikinn og vann að lokum 31 stiga sigur.

Á sama tíma vann Njarðvík öruggan 113-84 sigur á Skallagrím og tryggðu Njarðvíkingar sér með því annað sæti deildarinnar, jafnir Stjörnunni að stigum en Garðbæingar höfðu betur í innbyrðis viðureignum.

Á Sauðárkróki fengu Keflvíkingar skell 89-68 í hreinum úrslitaleik upp á þriðja sætið þar sem Stólarnir leiddu með 38 stigum fyrir lokaleikhlutann. Með sigrinum tekur Tindastóll þriðja sætið en Keflavík er í því fjórða.

Breiðhyltingar unnu 85-81 sigur á Grindavík og færðist ÍR því upp í sjöunda sætið fyrir úrslitakeppnina sem tryggir þeim einvígi gegn Njarðvík á meðan Grindavík mætir Stjörnunni.

Að lokum vann Valur níu stiga sigur á Þór Þorlákshöfn og KR skellti Blikum 103-68.