Valur er komið á topp Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu á nýjan leik en liðið vann sannfærandi 4-0 sigur gegn ÍBV í 16. umferð deildarinnar í dag.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö marka Vals í leiknum og Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir sitt markið hvor. Elín Metta og Hlín eru markahæstu leikmenn deildarinnar með 16 mörk hvor en Margrét Lára er nú orðin þriðja markahæst með 14 mörk.

Selfoss hafði betur í öðru leik sínum í röð þegar liðið lagði Fylki að velli með einu marki gegn engu. Það var Hólmfríður Magnúsdóttir sem skoraði sigurmark Selfoss strax á þriðju mínútu leiksins.

Stjarnan tryggði sér svo endanlega sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili með 4-1 sigri gegn Keflavík sem er í slæmri stöðu. Maired Clare Fulton kom Keflavík yfir en Aníta Ýr Þorvaldsdóttir jafnaði metin fyrir Stjörnuna, Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði svo tvívegis áður en Jasmín Erla Ingadóttir gulltryggði sigur Stjörnunnar með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins.

Toppslagur í næstu umferð deildarinnar

Hildigunnur Ýr sem er 16 ára gamall framherji hefur þar af leiðandi skorað sjö mörk í deildinni í sumar og Aníta Ýr sem er jafn gömul henni var að skora sitt annað deildarmark á leiktíðinni.

Valur trónir á toppi deildarinnar með 46 stig þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni og Breiðblik kemur þar á eftir með 44 stig. Liðin mætast í toppslag á Kópavogvselli í næstu umferð.

Selfoss er svo í þriðja sæti með 28 stigi þremur stigum á undan Þór/KA sem er að leika við KR í síðasta leik 16. umferðarinnar þessa stundina. Fylkir siglir lygnan sjó með 22 stig í fimmta sæti og Stjarnan er eins og áður segir hólpið með sín 19 stig í sjötta sæti. KR er með 16 stig í sjöunda sæti og bjargar sér frá falli með því að ná í stig gegn norðankonum.

ÍBV er í sætinu fyrir ofan fallsæti deildarinnar með 12 stig, Keflavík í neðra fallsætinu með 10 stig og HK/Víkingur vermir botnsætið með sjö stig.