Íslenski boltinn

Stjarnan bikar­meistari í karla­flokki í fyrsta sinn

Garðbæingar höfðu betur 4-1 í vítaspyrnukeppni gegn Breiðablik á Laugardalsvelli í kvöld og unnu þar fyrsta bikarmeistaratitil sinn í karlaflokki eftir markalaust jafntefli í venjulegum leiktíma.

Garðbæingar reisa bikarinn á loft á Laugardalsvelli í kvöld Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Stjarnan er bikarmeistari í karlaflokki í fyrsta sinn eftir 4-1 sigur í vítakeppni í bikarúrslitaleik á Laugardalsvellli í kvöld. Staðan var markalaus í leikslok en taugar Garðbæinga reyndust sterkari í vítakeppninni.

Var þetta í þriðja sinn sem Garðbæingar leika til úrslita í karlaflokki í bikarnum en í fyrsta sinn sem bikarinn fer í Garðabæinn. 

Haraldur Björnsson var hetja Stjörnunnar í kvöld, eftir að hafa horft á eftir vítaspyrnu Olivers Sigurjónssonar sigla yfir markið varði hann vítaspyrnu Arnórs Gauta Ragnarssonar og kláraði Stjarnan einvígið stuttu síðar.

Heilt yfir var sigurinn sanngjarn, Garðbæingar fengu betri færi í leiknum og á góðum degi hefðu þeir skorað mörk í leiknum til að klára leikinn fyrr.

Blikar breyttu um leikkerfi og tefldu fram þremur miðvörðum til að takast á við sóknarlínu Stjörnunnar en Garðbæingar tefldu fram hefðbundnu leikkerfi.

Fyrri hálfleikur var bragðdaufur og voru bæði liðin varfærnisleg í sóknaraðgerðum sínum. Næst komst Baldur Sigurðsson undir lok fyrri hálfleiks en Gunnleifur Gunnleifsson í marki Blika varði vel.

Liðin fóru framar á völlinn og voru farin að taka aukna áhættu í seinni hálfleik en markverðir liðanna stóðu vakt sína af prýði.

Brynjar Gauti var með góðar gætur á Thomas Mikkelsen í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Haraldur Björnsson varði tvívegis vel og Gunnleifur bjargaði Blikum á ný undir lok venjulegs leiktíma.

Varamaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson virtist hafa tryggt Garðbæingum sigurinn með marki í uppbótartíma venjulegs leiktíma en var flaggaður rangstæður. Þurfti því að framlengja.

Garðbæingar voru líklegri í framlengingunni gegn þreyttum Blikum sem voru búnir með skiptingar sínar og gátu því ekki skipt út leikmönnum sem fengu krampa.

Baldur fékk sannkallað dauðafæri til að klára leikinn á 120. mínútu leiksins þegar hann tók boltann snyrtilega niður í vítateig Blika en skot hans fór hátt yfir. 

Stjarnan þjarmaði að Blikum á lokasekúndunum en inn vildi boltinn ekki og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni.

Komust Garðbæingar 2-1 yfir áður en Blikar glutruðu leiknum frá sér. Brenndi Oliver af og stuttu síðar varði Haraldur frá Arnóri sem þýddi að Garðbæingar voru með pálmann í höndunum.

Var það síðan Eyjólfur Héðinsson sem skoraði sigurmark Stjörnunnar og brutust ógurleg fagnaðarlæti út í leikslok.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Íslenski boltinn

Valur krækti í tvo öflulega leikmenn

Íslenski boltinn

Höttur og Huginn sameinast

Íslenski boltinn

Valsmenn með pennann á lofti

Auglýsing

Nýjast

Þrír sigrar í röð hjá Stjörnunni

Þungur róður hjá Selfossi

Valur fór ansi illa með Hauka

Fínt framan af hjá íslenska liðinu

Nokkrir góðir kaflar dugðu ÍBV til sigurs

Felix tryggði íslenska liðinu jafntefli

Auglýsing