Tveir leikir fóru fram í 21. umferð Dominos-deild karla í kvöld þegar Stjarnan vann 91-73 sigur á Grindavík á sama tíma og KR vann xx-xx sigur á ÍR.

Garðbæingar eru því með örlögin í eigin höndum fyrir lokaumferðina þegar þeir heimsækja Hauka. Með sigri þar eru Stjörnumenn deildarmeistarar og með heimaleikjarétt í gegnum úrslitakeppnina.

Grindvíkingar sem komust í úrslitakeppnina í gær voru skrefinu á eftir allan leikinn og eftir að hafa náð átta stiga forskoti í fyrsta leikhluta bætti Stjarnan við forskot sitt í öðrum og þriðja leikhluta.

Þegar fjórði leikhluti hófst var munurinn nítján stig og landaði Stjarnan öruggum sigri í fjórða leikhluta. Brandon Rozzell var stigahæstur í liði heimamanna með 29 stig en hjá gestunum var Ólafur Ólafsson atkvæðamestur með 24 stig.

Spennan var mun meiri í Breiðholtinu þar sem ÍR tók á móti KR, degi eftir að ÍR komst ásamt Grindavík í úrslitakeppnina eftir að Haukar fengu skell í Þorlákshöfn. 

KR með sigri hélt lífi í baráttunni um fjórða sætið og heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fari svo að Keflavík vinni Stólana í lokaumferðinni kemst KR upp fyrir Stólana með sigri á Blikum.

Það var allt í járnum frá fyrstu mínútu þar til undir lok leiksins í Breiðholtinu. KR var með þriggja stiga forskot fyrir lokaleikhlutann og þeim tókst að standast seinbúið áhlaup ÍR-inga.

Michele DiNunno var stigahæstur í liði gestanna með 28 stig en Kristófer Acox fór á kostum í liði KR-inga í kvöld með flotta tvennu, 21 stig og 17 fráköst. 

Hjá heimamönnum var Gerald Robinson stigahæstur með 19 stig og Matthías Orri Sigurðarson með tvöfalda tvennu, 15 stig og 11 fráköst.