Belgíska lands­liðið hefur átt af­leitt HM hingað til og hefur and­leysið í liðinu þótt vera vel sjáan­legt. Þá munu nýjustu fréttir af liðinu ekki vekja vonir um bjartari tíma en RTL Sport greinir frá því að þremur reynslu­miklum leik­mönnum lands­liðsins hafi lent saman í búnings­klefanum eftir 2-0 tap Belgíu gegn Marokkó á dögunum.

Um­ræddir leik­menn er sagðir hafa verið Kevin de Bru­yne, Jan Ver­tong­hen og Eden Hazard en sam­kvæmt RTL Sport þurfti fram­herjinn stóri og stæði­legi, Romelu Luka­ku að stía þá í sundur.

Við­tal sem De Bru­yne fór í eftir fyrsta leik Belgíu á HM hefur varpað á hann mikilli gagn­rýni en þar gaf leik­maðurinn það í skyn að lands­lið Belgíu væri of gamalt til að geta unnið HM.

Um­rætt við­tal er að draga dilk á eftir sér og ekki virðast allir ganga í takt í sömu átt þessa stundina hjá liðinu, mynd­skeið hafa birst á sam­fé­lags­miðlum af rifrildum leik­manna inn á vellinum og þá er belgíska pressann mjög harð­orð í garð De Bru­yne.

Þrátt fyrir allt þetta eygir Belgía enn mögu­leika á að komast í 16-liða úr­slit HM. Liðið leikur loka­leik sinn í riðla­keppninni gegn Króatíu og verður að vinna þann leik.