Enski landsliðsmaðurinn Raheem Sterling lýsti yfir áhuga á að spila einn daginn í MLS-deildinni í viðtali í Bandaríkjunum.

Sterling var valinn besti leikmaður tímabilsins á Englandi af fjölmiðlamönnum í Englandi þegar Manchester City vann þrefalt á Englandi.

Hinn 24 ára gamli sóknarmaður á fjögur ár eftir af samningi sínum á Etihad-vellinum og virðist hafa áhuga á að spreyta sig erlendis einn daginn.

„Enska deildin er í sókn hérna í Bandaríkjunum og vinsældirnar eiga eftir að aukast. Ég átti ekki von á því að fólk myndi þekkja mig út á götu hérna en vonandi mun ég koma einn daginn og leika hér. MLS-deildin er að verða vinsælli á Englandi og ég vonast til að leika hér einn daginn.“