Í fyrsta sinn verður hægt að spila sem íslenska kvennalandsliðið í tölvuleiknum vinsæla FIFA 23.

EA Sports, framleiðandi leiksins, birti á dögunum lista yfir öll liðin sem standa spilurum til boða í leiknum sem kemur út þann 30. september næstkomandi.

Alls standa sautján landslið í kvennaflokki leikmönnum til boða í næsta leik og kemur Ísland inn að þessu sinni.

Stefán Sveinn Gunnarsson, sviðsstjóri á markaðssviði Knattspyrnusambands Íslands, segir að það hafi verið ein af forsendum KSÍ að fá kvennalandsliðið inn í leikinn þegar viðræður við EA Sports stóðu yfir á síðasta ári.

„Við framlengdum samninginn við EA sports síðasta sumar eftir þónokkrar viðræður. Ein forsenda þess að við samþykktum framlengingu var einmitt sú að þeir myndu þróa kvennaliðið okkar líka í sínu vöruframboði,“ segir Stefán sem segir að það sé ekki að skila auknum tekjum inn á borð KSÍ, aðspurður út í málið.

„Fyrir samninginn greiðir EA Sports engar fjárhæðir til okkar. Við metum þennan sýnileika þess virði að hann sé réttlætanlegur án greiðslunnar.“

Þá verður einnig hægt að spila með tvær íslenskar landsliðskonur með félagsliðum sínum.

Þá verður hægt að spila í ensku- og frönsku kvennadeildunum í fyrsta sinn að þessu sinni og geta íslenskir FIFA spilarar því stýrt Dagnýju Brynjarsdóttur hjá West Ham og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur hjá PSG í leiknum.