Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er þessa stundina á Evrópumótinu á Englandi og hefur nú þegar leikið einn leik á mótinu sem endaði með 1-1 jafntefli á móti Belgíu. Næsti leikur liðsins er á fimmtudaginn kemur gegn Ítalíu og það er ljóst af samfélagsmiðlum að dæma að ekki er dauð stund hjá Stelpunum okkar milli leikja.

Það sést til að mynda ef skoðaður er Tik Tok reikningur Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, miðjumanns íslenska landsliðsins og þýska stórveldisins Bayern Munchen.

Þar má til að mynda finna myndband þar sem að fjölmargir leikmenn íslenska landsliðsins taka höndum saman, virkja leiklistarhæfileikana og herma eftir auglýsingaherferð No Name Studio sem kynnir nýjar vörur með myndböndum á Facebook.