Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu unnu erfiðan er kærkomin 1-0 sigur á Tékkum í undankeppni HM 2023 í kvöld.

Með því er Ísland öruggt með eitt af efstu tveimur sætum C-riðilsins og sæti í umspili fyrir HM 2023 að hið minnsta.

Þegar Ísland á tvo leiki eftir gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi stefnir allt í hreinan úrslitaleik um efsta sæti riðilsins í Hollandi í haust.

Efsta sæti riðilsins fer beint inn á HM en annað sætið fer í umspil.

Tvö jafntefli Hollands gegn Tékkum þýðir að Íslendingum dugar jafntefli gegn Evrópumeisturum Hollands til að komast á HM í fyrsta sinn. Mótið fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.

Ljóst var fyrir leik að um væri að ræða hreinan úrslitaleik fyrir tékkneska liðið. Jafntefli eða íslenskur sigur myndi gera út um vonir þeirra í undankeppninni.

Þjálfarateymið gerði eina breytingu á milli leikja. Sandra Sigurðardóttir kom inn fyrir Cecilíu Rán Rúnarsdóttur en Sara Björk Gunnarsdóttir var áfram á bekknum og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með fyrirliðabandið.

Það var Gunnhildur sem braut ísinn eftir fast leikatriði um miðjan fyrri hálfleik. Glódís Perla Viggósdóttir skallaði innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur áfram og féll boltinn fyrir Gunnhildi við marklínuna sem skoraði með hendinni.

Engin myndbandsdómgæsla var á vellinum og stóð markið því. Ekki hægt að kvarta og Ísland komið með mikilvægt mark.

Eftir því sem líða tók á seinni hálfleikinn fór tékkneska liðið að færa sig framar án þess að ógna marki Íslands.

Flestar sóknarlotur Tékka stöðvuðu áður en komið var í vítateiginn og átti Sandra nokkuð náðugan dag í marki Íslands.

Sara Björk kom inn á snemma í seinni hálfleik en meiddist undir lok venjulegs leiktíma. Hafnfirðingurinn harkaði meiðslin af sér og spilaði síðustu mínútur leiksins enda var þjálfarateymið búið með skiptingarnar.

Þrátt fyrir að vera manni færri í nokkrar mínútur var það Ísland sem fékk betri færin og var Sveindís óheppin að innsigla ekki sigur Íslands undir lok venjulegs leiktíma.

Tékkar komu boltanum í net Íslands fyrir lok venjulegs leiktíma en dómari leiksins gerði Íslandi greiða og flautaði markið af. Tékkar voru æfir af reiði enda var ekki að sjá að eitthvað hefði verið að markinu.