Þrátt fyrir að hafa komist yfir og hótað því að skora sigurmarkið nokkrum sinnum undir lok leiksins þurftu Stelpurnar okkar að sætta sig við eitt stig gegn Belgíu í fyrsta leik liðsins á Evrópumóti kvenna.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Íslandi yfir með lalegu skallamarki áður en Justine Vanhaevermaet jafnaði metin af vítapunktinum.

Íslenska liðið var líklegra til að stela sigrinum á lokamínútum leiksins og komst Karólína Lea Vilhjálmsdóttir næst því að skora þegar skot hennar fór hárfínt framhjá.

Næsti leikur Íslands er gegn Ítölum á fimmtudaginn en á sama tíma mætast Belgar og Frakkar.

fréttablaðið/ernir

Þorsteinn Halldórsson tefldi fram sama byrjunarliði og í æfingaleiknum gegn Póllandi. Sara Björk Gunnarsdóttir var á sínum stað á miðjunni og með fyrirliðaband íslenska liðsins.

Sveindís Jane Jónsdóttir fór snemma að hrella bakverði belgíska liðsins en andstæðingar Íslands voru ívið sterkari fyrstu þrjátíu mínútur leiksins.

Sveindís fékk gott færi á 31. mínútu leiksins og mínútu síðar krækti hún í vítaspyrnu þegar skot hennar fór af hendi varnarmanns Belga og yfir.

Dómarinn notaðist við myndbandsdómgæslu þegar hann úrskurðaði Íslendingum víti. Berglind Björg steig á punktinn en lét verja frá sér.

Berglind kom Íslandi yfir en það dugði ekki til.
fréttablaðið/ernir

Staðan var því markalaus í hálfleik og margt sem mátti betur fara, en um leið voru Belgar ekki búnar að ógna marki Íslands verulega.

Í upphafi seinni hálfleiks bætti Berglind upp fyrir fyrri mistök þegar hún kom Íslandi yfir með skallamarki. Fyrirgjöf Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur rataði á fjærstöng þar sem Berglind braut ísinn með góðum skalla.

Næstu mínútur leiksins gengu vel og var fátt sem benti til þess að Belgar myndu jafna mtein þegar önnur vítaspyrna leiksins var dæmd. Gunnhildur Yrsa var óheppin þegar hún felldi Elenu Dhont og þótt að snertingin hafi ekki verið mikil var ekki hægt að mótmæla.

Karólína lagði upp mark Íslands í dag.
fréttablaðið/ernir

Vanhaevermaet fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi á 67. mínútu leiksins og var því allt opið fyrir lokaþriðjung leiksins.

Íslenska liðið sótti í sig veðrið á lokamínútum leiksins og mátti oft litlu muna til þess að Ísland myndi skora sigurmarkið.

Næst komst Karólína þegar boltinn barst til hennar á vítateigslínunni en skot hennar fór rétt framhjá marki Belganna.

Ljóst var fyrir leik að hvorugt lið mátti við því að tapa leik dagsins og er því allt opið fyrir næstu leiki íslenska liðsins.