KSÍ staðfesti fyrr í dag að kvennalandsliðið myndi mæta Hvíta-Rússlandi í Serbíu þegar liðin mætast í upphafi næsta mánaðar.

Knattspyrnusambandið var búið að óska eftir því að kvennalandsliðið þyrfti ekki að mæta Hvít-Rússum í þeirra landi eftir að bandamenn Hvít-Rússa í Rússlandi hófu innrás í Úkraínu.

Leikurinn fer fram á FK Vozdovac Stadium og hefst klukkan fjögur að íslenskum tíma.

Þetta verður fyrri leikur kvennalandsliðsins af tveimur í landsleikjahlénu þar sem tveir sigrar fara langt með að tryggja Íslandi sæti í umspili fyrir HM 2023 að minnsta kosti.

Ísland er með níu stig eftir fjóra leiki í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir Hollandi sem hefur leikið einum leik meira.