Íslenska kvennalandsliðið lék hreint út frábærlega þegar Stelpurnar okkar unnu 4-0 sigur á Tékklandi í undankeppni HM 2023 í kvöld og eru því komnar á blað eftir tvo leiki.

Með því náði Ísland um leið að hefna fyrir sárt jafntefli gegn sömu andstæðingum sem gerði út um umspilsvonir Íslands í undankeppninni fyrir HM 2019.

Ísland komst yfir snemma leiks og gerði út um leikinn með góðum kafla þegar líða tók á seinni hálfleikinn.

Kvennalandsliðið náði um leið að rétta af markamuninn sem gæti reynst dýrmætt í lok undankeppninnar.

Leikmenn Íslands fagna fyrsta markinu í kvöld
fréttablaðið/sigtryggur ari

Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti stóran þátt í fyrsta marki Íslands þegar skot hennar fór af markmanni Tékka og í netið. Markið var skráð á Barbora Votikova en dýrmætt enga síður til að brjóta ísinn.

Ísland leiddi verðskuldað í hálfleik og bætti við forskot sitt á 58. mínútu leiksins þegar Dagný Brynjarsdóttir stangaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf.

Svava Rós Guðmundsdóttir var skipt inn á völlinn á 75. mínútu og var hún aðeins fimm mínútur að koma boltanum í net Tékkana eftir undirbúning Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.

Einkar snyrtilegt mark hjá Svövu sem lagði boltann í hornið úr vítateig Tékka.

Gunnhildur komst svo sjálf á blað nokkrum mínútum síðar þegar hún skoraði af stuttu færi eftir langan bolta inn í teig Tékka sem náðu ekki að hreinsa.

Næsti leikur Íslands er gegn Kýpur á þriðjudaginn á sama tíma og Tékkland mætir Hollandi. Ísland getur því komist yfir Tékkana í næstu viku ef úrslitin verða hagstæð.