Stelpurnar okkar náðu að vinna öruggan sigur og um leið dreifa álaginu vel þegar þær unnu 5-0 sigur á Hvít-Rússum í undankeppni HM í kvöld. Sigurinn er mikilvægt veganesti í mikilvægari leik gegn Tékkum á þriðjudaginn.

Um leið gat Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, dreift álaginu vel og skipt leikmönnum snemma inn á í seinni hálfleik þegar ljóst var að stigin væru Íslands.

Þá gat Sara Björk Gunnarsdóttir leikið fyrstu mínútur sínar fyrir landsliðiðið í tæplega eitt og hálft ár þegar landsliðsfyrirliðinn lék stærstan hluta seinni hálfleiks.

Ljóst var fyrir leik að Ísland væri mun sigurstranlegri og hleyptu Stelpurnar okkar andstæðingum sínum aldrei inn í leikinn.

Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir voru að leika hundraðasta leik sinn fyrir kvennalandsliðið í dag og var það því viðeigandi að Dagný skyldi brjóta ísinn fyrir Ísland snemma leiks þegar hún skoraði af stuttu færi.

Hennar 34. mark fyrir Ísland og þriðja mark í þessari undankeppni. Rangæingurinn stefnir hraðbyri að því að ná Hólmfríði Magnúsdóttur í öðru sæti yfir flest mörk fyrir kvennalandsliðið en Dagnýju vantar tvö mörk til að jafna Hólmfríði.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir bætti öðru marki við skömmu síðar. Aftur skapaðist ringulreið í vítateig andstæðinganna eftir fast leikatriði íslenska liðsins og skoraði Gunnhildur af stuttu færi.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir bætti við þriðja marki Íslands mínútu síðar eftir góðan undirbúning Sveindísar Jane Jónsdóttur. Annar leikurinn í röð í undankeppninni sem Eyjamærin er á skotskónum.

Í upphafi seinni hálfleiks var komið að Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur að bæta við mörkum. Karólína kom Íslandi 4-0 yfir með snyrtilegu marki úr aukaspyrnu og var svo aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar eftir undirbúning Sveindísar.

Við það fór íslenska liðið að taka breytingum með varamönnum en lengra komst íslenska liðið ekki í kvöld þrátt fyrir álitlegar sóknir og fín færi.

Heilt yfir afar sannfærandi sigur sem hefði auðveldlega getað orðið mun stærri, en að sama skapi gátu Stelpurnar okkar reynt að stýra álaginu fyrir leikinn gegn Tékkum sem skiptir öllu máli.

Takist Íslandi að vinna Tékkana eru Stelpurnar okkar komnar langleiðina í umspilið fyrir HM 2023 og með örlögin í eigin höndum að geta komist beinustu leið á lokakeppni HM í fyrsta sinn.