Kvennalandsliðið fellur niður um eitt sæti á kostnað Belgíu og er í 18. sæti á nýjasta styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í morgun.

Með því tók Belgía fram úr Íslandi og telst tíunda besta landslið Evrópu samkvæmt listanum.

Liðnir eru rúmlega fjórir mánuðir frá síðasta leik kvennalandsliðsins en þær fara af stað á ný í næsta mánuði þegar Ísland tekur þátt í æfingarmóti á Spáni.

Þá eru Stelpurnar okkar með fullt hús stiga í undankeppni EM 2021 eftir sigra á Ungverjalandi, Slóvakíu og Lettlandi.

Bronslið Svíþjóðar frá síðasta HM sem eru með Stelpunum okkar í riðli eru í fimmta sæti styrkleikalistans.