Dregið verður í Manchester á Englandi og fulltrúar Íslands á hátíð dagsins eru mættir á svæðið. Mikið verður um dýrðir og Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, nýtti tækifærið og lét mynda sig með verðlaunagrip mótsins í dag.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands
GettyImages

Íslenska landsliðið vann sér inn þátttökurétt á mótinu með því að lenda í öðru sæti síns riðils í undankeppninni og vera stighæsta liðið í öðru sæti af öllum riðlunum. Þrjú stigahæstu liðin í öðru sæti riðlanna unnu sér inn beint sæti á mótinu.

Ísland verður í pottinum þegar dregið verður í riðla seinna í dag
GettyImages

Væri draumur að byrja á Old Trafford

Alls taka sextán þjóðir þátt á mótinu, þeim hefur verið skipt í fjóra potta fyrir dráttinn á föstudaginn. Fjögur lið eru í hverjum potti og hver riðill samanstendur af fjórum liðum, einu úr hverjum potti. Ísland er í fjórða potti ásamt Rússlandi, Finnlandi og Norður Írlandi. Ísland getur því ekki mætt þeim þjóðum í riðlakeppninni.

Mögulegir andstæðingar Íslands í riðlakeppninni eru því:

Pottur þrjú: Danmörk, Belgía, Sviss og Austurríki
Pottur tvö: Svíþjóð, Spánn, Noregur og Ítalía
Pottur eitt: England, Holland, Þýskaland og Frakkland

Ljóst er að Englendingar verða í A-riðli sem mótshaldarar og munu leika opnunarleik mótsins sem fer fram á hinum sögufræga velli, Old Trafford, heimavelli Manchester United.

GettyImages