Greg Clarke sem verið hefur formaður enska knattspyrnusambandsins frá því haustið 2016 hefur sagt starfi sínu lausu.

Það gerði Clarke vegna ummæla sem hann lét falla á fjarfundi með þingmönnum. Þar ræddi hann hversu erfitt væri fyrir samkynhneigða knattspyrnumenn að koma út úr skápnum sökum samfélagsmiðla.

Sagði Clarke í þeirri umræðu það vera ákvörðun um lífstíl hjá einstaklingi að vera samkynhneigður.

Þar notaði hann einnig orðalagið high-profile coloured footballers eða litaðir fótboltamenn þegar tal hans barst að knattspyrnumönnum í minnihlutahópum.

Þá sagði Clarke að fólk frá Afríku, Karabíuhafinu og Suður-Asíu hefðu mismunandi áhugasvið.

Clarke baðst fyrst um sinn afsökunar á orðum sínum og bar því við að þegar hann bjó í Bandaríkjunum á sínum tíma hefði verið farið fram á við hann að nota orðið litaður um minnihlutahópa.

Enska knattspyrnusambandið tilkynnti svo í kvöld um uppsögn Clarke úr starfi sínu.