Azeem Rafiq, fluttist frá Pakistan til Bretlands árið 2001. Hann spilaði í kjölfarið fyrir yngri landslið Englands í krikket auk þess sem hann kleif metorðastigann hjá félagi sínu í Jórvíkurskíri.

Árið 2012 varð hann fyrsti fyrirliði krikketliðs Jórvíkurskíris af asískum uppruna og leiddi liðið til sigurs í fimm leikjum af sex áður en að bretinn Andrew Gale varð fyrirliði á ný eftir að hafa jafnað sig á meiðslum.

Azeem steig fyrst fram í september á síðasta ári og lýsti kerfisbundnu kynþáttaníði sem hann hefur orðið fyrir í starfi sínu sem krikketleikmaður. Félag hans í Jórvíkurskíri setti af stað rannsókn á málinu sem hefur nú verið harðlega gagnrýnd.

Niðurstaða rannsóknarinnar lá fyrir í september á þessu ári, það var ljóst að Azeem hefði orðið fyrir kynþáttaníði en engir eftirmálar urðu, enginn gerandi þurfti að líða fyrir aðgerðir sína.

Í gær gaf Azeem vitnisburð frammi fyrir nefnd á vegum breska þingsins. Þar lýsti hann því hvernig kerfisbundið kynþáttaníð hefði átt sér stað og beinst að honum um áraraðir.

Azeem Rafiq gaf vitnisburð frammi fyrir nefnd breska þingsins í gær
Mynd: Twitter

Fljótlega ljóst að ekki var allt með felldu

Hann var að upplifa draum sinn er hann hóf að spila með krikket hetjum sínum í Jórvíkurskíri, leikmanna sem hann leit upp til.

,,Fljótlega varð það hins vegar ljóst að ég og aðrir leikmenn af Asískum uppruna vorum teknir til hliðar. Okkur var sagt: 'þið sitjið þarna hjá klósettunum', við vorum kallaðir fílahirðar," sagði Azeem frammi fyrir bresku þingnefndinni í gær.

Þá lýsti hann því hvernig niðandi orð sem er notað um fólk af pakistönskum uppruna var notað í sífellu er hann var ávarpaður af liðsfélögum sínum og meðlimum þjálfarateymis Jórvíkurskíris.

Þetta er aðeins brotabrot af því kynþáttaníði sem að Azeem og aðrir leikmenn af Asískum uppruna urðu fyrir árum saman. Hann segir þetta hafa viðgengist hjá Jórvíkurskíri, það steig enginn inn í og stoppaði það sem þarna fór fram.

GettyImages

Vildi bara upplifa draum sinn

,,Það eina sem ég vildi gera var að spila krikket og spila fyrir England, upplifa draum minn, draum fjölskyldu minnar," sagði Azeem Rafiq, krikketspilari frammi fyrir breskri þingnefnd í gær.

Azeem hóf að taka lyf sökum síversnandi andlegrar heilsu sinnar árið 2014. Frammi fyrir bresku þingnefndinni í gær lýsti hann því hvernig hann hafði orðið fyrir kynþáttaníði af hálfu leikmanna, þjálfara, íþróttalýsenda og fyrrum leikmanna enska landsliðsins.

Hann segir ekki einungis hægt að benda á kerfisbundið kynþáttaníð í Jórvíkurskíri, þetta sé vandamál sem teygi sig um allar Bretlandseyjar.

Vitnisburður Azeem markar þáttaskil

Fjölmiðlar í Bretlandi virðast vera sammála um það að vitnisburður Azeem Rafiq frammi fyrir bresku þingnefndinni í gær hafi markað þáttaskil.

Yfirstjórn krikketliðs Jórvíkurskíris hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarið sökum þess hversu léleg viðbrögð félagsins voru eftir að Azeem steig fram í september á síðasta ári.

GettyImages

Fyrr í mánuðinum riftu allir samstarfsaðilar félagsins samningi sínum, aðstaða félagsins mun ekki vera vettvangur fyrir enska landsliðið í framtíðinni og þetta orðspor þessa sögufræga krikketliðs Bretlands er í molum.

,,Við vonumst til að vitnisburður Azeem og geti markað þáttaskil, blási öðrum byr í brjóst til að stíga fram," skrifar Dan Roan, ritstjóri íþróttahluta BBC.